Innlent

Þráinn er langbesti hestur sem Þórarinn hefur riðið

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Þráinn heimsmeistari og Þórarinn Eymundsson, tamningamaður og knapi
Þráinn heimsmeistari og Þórarinn Eymundsson, tamningamaður og knapi Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Stóðhesturinn Þráinn frá Flagbjarnarholti er nýr heimsmeistari eftir að hann sló öll met í kynbótadómi, auk þess að fá 9,11 fyrir hæfileika. Knapi og þjálfari Þráins er Þórarinn Eymundsson sem segist aldrei áður hafa riðið jafn góðum og flottum  hesti.

Þráinn sem er sex vetra er sonur Álfs frá Selfossi og Þyrlu frá Ragnheiðarstöðum í Flóa, stór og fallegur hestur. Þórarinn er með hann í hesthúsinu sínu á Sauðárkróki en hann hefur þjálfað Þráinn síðustu tvö ár.  Þórarinn er einn virtasti og besti tamningamaður og knapi landsins. Eigendur Þráins eru Hollendingar.

„Hann var að slá heimsmet með því að fá hæstu aðaleinkunn sem hefur verið gefin í heimi í kynbótadómi, 8,95 og hann fékk 9,11 fyrir hæfileika og 8,70 fyrir sköpulag“, segir Þórarinn.

Þórarinn nýtur stundum tækifærið og ríður út með dætrum sínum á Þráni, hér eru þær Þórgunnur, 12 ára á Flipa frá Bergsstöðum og Hjördís Halla, 8 ára á Hálegg frá Saurbæ. En allt snýst þetta um nýja heimsmeistarann.

„Þetta er algjör öðlingur og alltaf verið gríðarlegt hreyfieðli í honum og svo þegar hann fer að eflast líkamlega og viljinn í honum þá eru engin takmörk fyrir því sem hann getur gert“, segir Þórarinn.

Þráinn vekur mikla athygli fyrir litinn sinn enda er hann fallega skjóttur.

En er Þráinn besti hestur sem Þórarinn hefur riðið og tamið?

„Hann sko, nú kemur hik á mig, en eins og hann er að þróast núna þá er það, algjörlega ekki spurning“.

Þráinn og Þórarinn munu koma fram á landsmóti hestamanna í Reykjavík eftir nokkrar vikur. Strax eftir mótið fer Þráinn í merar á bæinn Holtsmúla í Landsveit. Nú þegar hefur hann verið notaður á nokkrar merar í Skagafirði enda margir  hestamenn sem vilja leiða hryssurnar sínar undir svona glæsilegan hest og heimsmeistara. Folatollurinn kostar 150.000 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×