Erlent

Undirrituðu „sögulegt og yfirgripsmikið skjal“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bandaríkjafroseti heldur hér á skjalinu sem undirritað var.
Bandaríkjafroseti heldur hér á skjalinu sem undirritað var. SKjáskot
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Bandaríkjaforsetinn Donald Trump undirrituðu „sögulegt og yfirgripsmikið skjal“ undir lok fundar þeirra í Singapúr í morgun.

Fátt annað er vitað um plaggið á þessari stundu. Gert er ráð fyrir því að Trump muni kynna innihald skjalsins á blaðamannafundi síðar í dag.

Uppfært 06:40:

Innihald skjalsins er í fjórum liðum að sögn breska ríkisútvarpins:

1. Bandaríkin og Norður-Kórea skuldbinda sig til að koma á sambandi milli ríkjanna í samræmi við vilja íbúa þeirra um frið og velsæld.

2. Bandaríkin og Norður-Kóreu munu vinna saman að því að tryggja viðvarandi og stöðugan frið á Kóreuskaganum.

3. Í samræmi við Panmunjom-yfirlýsinguna frá 27. apríl 2018 mun Norður-Kóreu vinna að algjörri kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans.

4. Bandaríkin og Norður-Kórea skuldbinda sig til að bera kennsl á og endurheimta lík stríðsfanga, auk tafalausrar heimsendingar þeirra sem borið hefur verið kennsl á.

Kim sagði eftir undirritunina að Norður-Kóreu hafi ákveðið að „segja skilið við fortíðina“ og að „heimsbyggðin muni upplifa gríðarlegar breytingar“ á Kóreuskaganum.

Trump tók í sama streng. Hann segist stoltur af því sem átti sér stað og að samband Bandaríkjanna og Norður-Kóreu muni gjörbreytast frá því sem áður var.

Aðspurður út í kjarnorkuafvopnun sagði Trump að hún myndi eiga sér stað „mjög, mjög fljótlega.“

Athygli vekur að skjalið kveður á um algjöra kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans. Þetta kann að hljóma eins og gríðarstórt skref en Kim hefur áður talað með þeim hætti að hann vilji losa Norður-Kóreu við kjarnavopn. Það gerði hann til að mynda á fundi sínum með suður-kóreskum embættismönnum í Panmunjom, sem vísað er til í skjalinu. Enginn veit hvernig Kim túlkar „algjöra kjarnorkuafvopnun.“

Einnig er athyglisvert að talað sé um Kóreuskagann í þessu samhengi. Það megi túlka sem svo að Suður-Kórea hafi haft einhverja aðkomu að gerð skjalsins.

Eintaki af skjalinu verður dreift til viðstaddra fréttamanna á næstu klukkustundum. Vísir var með beina lýsingu af fundi Kim og Trump í nótt. Hana má nálgast hér.

Fréttin verður uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×