Viðskipti innlent

Deilu Norðurturnsins og Smáralindar um bílastæði vísað aftur í hérað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Norðurturninn höfðaði dómsmál vegna bílastæða við Smáralind.
Norðurturninn höfðaði dómsmál vegna bílastæða við Smáralind. Vísir/GVA
Landsréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að vísa frá máli Norðurturnsins ehf. gegn Eignarhaldsfélaginu Smárarlind ehf. og Kópavogsbæ vegna samnýtingu bílastæða og ógildingu deiliskipulag sem heimilar uppbyggingu íbúðahverfisins 201 Smári. Þarf héraðsdómur að taka málið aftur til efnismeðferðar.

Málið má rekja til þess að Norðurturninn stefndi verslunarmiðstöðinni og Kópavogsbæ og vildi staðfestingu dómstóla á að kvaðir um samnýtingu bílastæða séu í gildi og að deiliskipulag sem heimilar uppbyggingu íbúðahverfisins 201 Smári yrði ógilt.

Í samtali við Markaðinn á síðasta ári sagði Ríkharð Ottó Ríkharðsson, framkvæmdastjóri Norðurturnsins að hinar fyrirhuguðu framkvæmdir rýri réttindi Norðurturnsins þar sem þær eigi eftir að fækka bílastæðum við suðvesturhorn Smáralindar.

Sjá einnig: Norðurturninn höfðar mál út af bílastæðum við Smáralind

Í úrskurði Héraðsdóms gerði dómari margvíslegar athugasemdir við stefnu Norðurturnins. Sagði þar að miðað við málatilbúnað gæti stefnandi ekki nýtt sér heimild í lögum til þess að stefna bæði Eignarhaldsfélaginu Smáralind ehf., og Kópavogsbæ „í sama máli til að þola dóm um alls óskyld atvik“.

Málinu var því vísað frá héraðsdómi þar sem dómari taldi slíkan galla vera á málatilbúnaði Norðurturnins að ekki væri hjá því komist að vísa því frá dómi. Niðurstöðu héraðsdóms var skotið til Landsréttar sem kvað upp úskurð sinn 22. mars síðastliðinn.

Segir í úrskurði Landsréttar að þar sem varnaraðilar, Smáralind og Kópavogsbær, hafi ekki gert kröfu um að málinu yrði vísað frá á grundvelli þess að skilyrði aðildarsamlags eða kröfusamlags væri ekki fullnægt, kæmi ekki til álita að vísa málinu frá af þeim sökum.

Sjá einnig:Stjórn Norðurturnsins kvartar undan forstjóra Regins

Í úrskurði Landsréttar segir einnig að Norðurturninn hafi í greinargerð til Landsréttar gert nánari grein fyrir aðild Smáralindar og Kópavogsbæjar hvað varðar hverja kröfu fyrir sig. Var það mat Landsréttar að Norðurturninn hefði á „fullnægjandi hátt gert grein fyrir kröfum sínum á hendur varnaraðilum þannig að efnisdómur verði lagður á þær“.

Var því frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og þarf Héraðsdómur Reykjaness að taka málið aftur til efnismeðferðar.


Tengdar fréttir

Stjórn Norðurturnsins kvartar undan forstjóra Regins

Stjórn Norðurturnsins við Smáralind gagnrýnir orð Helga S. Gunnarssonar, forstjóra Regins, um að verktakafyrirtækið BYGG sé "sprautan á bak við“ deilur eigenda turnsins og Eignarhaldsfélagsins Smáralindar ehf. og að þar ráði "nátttröllsviðhorf“ ríkjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×