Viðskipti innlent

Stjórn Norðurturnsins kvartar undan forstjóra Regins

Haraldur Guðmundsson skrifar
Norðurturninn höfðaði dómsmál vegna bílastæða við Smáralind.
Norðurturninn höfðaði dómsmál vegna bílastæða við Smáralind. Vísir/GVA
Stjórn Norðurturnsins við Smáralind gagnrýnir orð Helga S. Gunnarssonar, forstjóra Regins, um að verktakafyrirtækið BYGG sé „sprautan á bak við“ deilur eigenda turnsins og Eignarhaldsfélagsins Smáralindar ehf. og að þar ráði „nátttröllsviðhorf“ ríkjum. Harmar stjórnin að Helgi tali með slíkum hætti um „nágranna sína í fjölmiðlum“.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins.vísir/gva
Þetta kemur fram í bréfi sem Garðar Þ. Guðgeirsson, stjórnarformaður Norðurturnsins, sendi stjórn Regins, eiganda Smáralindar, og Kópavogsbæ um miðjan febrúar og Markaðurinn hefur undir höndum. Tilefnið er frétt blaðsins frá 8. febrúar þar sem Helgi gaf lítið fyrir stefnu sem Norðurturninn hefur höfðað gegn verslunarmiðstöðinni og Kópavogsbæ vegna bílastæða við Smáralind. Samkvæmt henni vilja eigendur turnsins staðfestingu dómstóla á að kvaðir um samnýtingu stæðanna séu í gildi og að deiliskipulag sem heimilar uppbyggingu íbúðahverfisins 201 Smári verði ógilt.

Helgi sagði í frétt Markaðarins að framkvæmdirnar fyrirhuguðu byggðu á faglegri umfjöllun skipulagsyfirvalda og að stefnan kæmi ekki til með að hafa áhrif á framgang verkefnisins. Ríkharð Ottó Ríkharðsson, framkvæmdastjóri Norðurturnsins, sagði þær rýra réttindi turnsins þar sem þær ættu eftir að fækka bílastæðum við suðvesturhorn Smáralindar.

Hjúpur, dótturfélag BYGG (Byggingafélags Gylfa og Gunnars), er stærsti eigandi Norðurturnsins með 28 prósenta hlut. Í bréfi Norðurturnsins er tekið fram að Hjúpur eignaðist hlut í byggingunni „löngu eftir að ágreiningur tengdur bílastæðum kom upp“. Allar athugasemdir við deiliskipulagið byggi á málefnalegum sjónarmiðum og séu studdar þinglýstum heimildum. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×