Innlent

Nýr verjandi Thomasar Møller segir málið líklega bíða til hausts

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Thomas var dæmdur í 19 ára fangelsi í héraði.
Thomas var dæmdur í 19 ára fangelsi í héraði. Vísir/Anton
Mál Thomasar Møller Olsen fer að öllum líkindum ekki fyrir Landsrétt fyrr en í haust. Enn er beðið matsskýrslu sem óskað var eftir til að meta hvar líkama Birnu var komið fyrir í sjó.

„Skýrslan átti að vera tilbúin í byrjun apríl en er ekki komin. Svo höfum við frest til 2. maí til að skila greinargerð í málinu og svo á ákæruvaldið eftir að skila greinar­gerð og réttargæslumenn þannig að mér finnst nú ólíklegt að þetta verði fyrr en eftir réttarhlé,“ segir Björgvin Jónsson hæstaréttarlögmaður.

Thomas óskaði nýverið eftir að Björgvin yrði skipaður verjandi hans í stað Páls Rúnars Kristjánssonar sem verið hefur verjandi Thomasar frá því hann var handtekinn í janúar á síðasta ári vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsrétti fer það eftir umfangi málsins hvort málflutningur getur farið fram fyrir réttarhlé og ekki sé unnt að taka afstöðu til þess fyrr en greinargerðum hefur verið skilað. Venju samkvæmt er réttarhlé í júlí og ágúst.

Þótt kveðinn hafi verið upp dómur yfir Thomasi í héraði hefur hann ekki enn hafið afplánun heldur situr hann í gæsluvarðhaldi þar til endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp í málinu. Vegna lagaáskilnaðar um að mál séu dæmd án ástæðulauss dráttar, sér í lagi ef menn sem bíða dóms sitja í gæsluvarðhaldi, eru áhöld um hvort það samræmist stjórnarskrá og ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu að fresta málflutningi vegna sumarleyfa.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×