Innlent

Dansandi hestur á Sunnuhvoli í Ölfusi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það getur reynst erfitt að kenna íslenska hestinum nýjar gangtegundir og hvað þá að leika listir sínar. Sextán ára stelpu í Ölfusi hefur þó tekist að kenna sínum hesti spænska sporið sem er mjög óvenjulegt spor, nokkurskonar dansspor sem hesturinn tekur.

Á bænum Sunnuhvoli í Ölfusi er mikill áhugi á hestum og allt sem þeim við kemur. Glódís Rún Sigurðardóttir er þar engin undantekning því hún er mikil keppnismanneskja og sér ekki sólina fyrir hestum. Hún hefur unnið margra sigra á hestinum Kambana frá Húsavík. Hún hefur líka verið að kenna honum ýmislegt annað, eins og spænska sporið.

„Það kallast spænska sporið eða spænska fetið, ég kenndi honum þetta fyrir nokkrum árum, honum finnst það mjög skemmtilegt því hann fær alltaf nammi,“ segir Glódís Rún.

En hvernig kennir maður hesti að gera spænska sporið ?

„Þú byrja bara á því að gefa smá ábendingu neðst á löppinni, og svo gerir þú bara meira og meira þar til hann svarar þér og svo þegar hann svarar þér rétt fær hann nammi. Svo reynir þú alltaf að fá hann til að setja löppina hærra og hærra“.

Glódís Rún segir mjög gaman að kenna hestum að gera listir. „Já, það er ótrúlega gott að gera eitthvað öðruvísi stundum, ekki alltaf það sama, því það er gott í allri þjálfun að hafa fjölbreytni“. 

Kamban verður 16 vetra í vor. Glódís segir hann draumahestinn sinn.

„Já, þetta er mikill gæðingur, hann er búin að vera í fremstu röð í keppni í nokkur ár í barnaflokki, hann er yfirburðahestur sem allir geta riðið“, segir Glódís Rún Sigurðardóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×