Enski boltinn

Ensku stelpurnar frábærar í fyrsta leiknum undir stjórn Phil Neville

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Neville jakkaklæddur og flottur í fyrsta leiknum sem þjálfari enska kvennalandsliðsins.
Phil Neville jakkaklæddur og flottur í fyrsta leiknum sem þjálfari enska kvennalandsliðsins. Vísir/Getty
Phil Neville stýrði enska kvennalandsliðinu í fótbolta í fyrsta sinn í gærkvöldi og gat ekki byrjað mikið betur.

Enska landsliðið vann þá 4-1 sigur á Frakklandi en þessi leikur var í  SheBelieves æfingamótinu í Bandaríkjunum.





„Ég var svolítið stressaður fyrir leikinn og var með fiðrildi í maganum en ekki leikmennirnir mínir sem skipti mestu máli. Það eru miklar væntingar og ég elska væntingar,“ sagði Phil Neville.

Ein af þeim fimm sem Phil Neville henti inn í byrjunarliðið var Toni Duggan og hún kom enska liðinu einmitt í 1-0 strax á 7. mínútu. Eftir 39 mínútur var staðan orðin 3-0 eftir að þær Jill Scott og Jodie Taylor bættu við mörkum.

Fran Kirby kom enska liðinu í 4-0 strax í byrjun seinni hálfleiks en Gaetane Thiney minnkaði muninn fyrir franska liðið þrettán mínútum fyrir leikslok.





Franska liðið er númer sex á heimslistanum og er því eitt sterkasta landslið heims. Það er því ekki mikið hægt að kvarta yfir byrjun Phil Neville sem á sínum ferli lék bæði með Manchester United og Everton.

Næsti leikur enska liðsins í mótinu er á móti þýska landsliðinu sem er enn að reyna að vinna sig út úr tapinu á móti stelpunum okkar síðasta haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×