Erlent

Pútín skipar fyrir um fimm klukkustunda daglegt vopnahlé í Ghouta

Hersir Aron Ólafsson og Þórdís Valsdóttir skrifa
Vladimir Pútín Rússlandsforseti vill að gert verði daglegt fimm klukkustunda hlé á árásum á Ghouta-svæðið í Sýrlandi. Árásir Sýrlandshers á svæðið hafa haldið áfram undanfarna daga, þrátt fyrir ályktun um vopnahlé sem samþykkt var í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á laugardag.

Talið er að yfir 550 manns hafi látist á síðustu átta dögum í árásum á Ghouta-svæðið í grennd við höfuðborgina Damaskus. Talið er að á meðal þeirra séu um annað hundrað börn.

Hátt í fjögur hundruð þúsund saklausir borgarar sitja fastir í Ghouta en svæðið lýtur stjórn uppreisnarmanna. Sýrlandsher hefur ekki látið samhljóða ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, um þrjátíu daga vopnahlé, stöðva sig í að gera nánast linnulausar árásir á svæðið.

Sýrlensk stjórnvöld njóta stuðnings Rússa í baráttu sinni við uppreisnarmenn en með tillögu sinni vill Pútín gefa saklausum borgurum færi á að flýja heimili sín. Þannig er að því stefnt að gert verði hlé á sprengjuflóðinu á milli klukkan níu á morgnanna og tvö um eftirmiðdaginn, frá og með morgundeginum.

Starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Sýrlandi munu aðstoða þá sem hyggjast flýja heimili sín í Ghouta með því að dreifa upplýsingum í gegnum SMS-skilaboð, myndbönd og með bæklingum. Þá munu þeir hjálpa við að koma í gagnið svokölluðum „mannúðlegum gangi“ sem borgarar geta nýtt til þess að flýja.

Svæðið sem „helvíti á jörðu“

Heilbrigðisstarfsmenn hafa greint frá því að nokkur fjöldi sjúklinga, þar á meðal börn, hafi sýnt einkenni sem benda til þess að efnavopn hafa verið notuð í árásir. Þetta hefur þó ekki verið staðfest en Rússar segja að um fals-fréttir sé að ræða.

Antonio Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna sagði í dag að svæðið væri „sem helvíti á jörðu“.

„Austur-Ghouta getur ekki beðið, það er löngu tímabært að stöðva þetta helvíti á jörð,“ sagði Guterres í dag.


Tengdar fréttir

Hryllingurinn heldur áfram í Sýrlandi

Sprengjum rigndi enn á íbúa Austur-Ghouta í gær og fórust tugir. Öryggisráðið ræðir um þrjátíu daga vopnahlé. Stríðið í Sýrlandi verður sífellt flóknara og fleiri aðilar dragast inn í átökin.

Loftárásir á Ghouta þrátt fyrir vopnahlé

Gerðar voru loftárásir á Ghouta héraðið í útjaðri Damaskus í gær og í morgun þrátt fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi í gær samþykkt þrjátíu daga vopnahlé í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×