Erlent

Laug um að hafa hitt Putin og segir af sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Halbe Zijlstra sagði lygina hafa verið "stærstu mistök ferils síns“ og að Holland ætti skilið að vera með utanríkisráðherra með óflekkað mannorð.
Halbe Zijlstra sagði lygina hafa verið "stærstu mistök ferils síns“ og að Holland ætti skilið að vera með utanríkisráðherra með óflekkað mannorð. Vísir/AFP
Halbe Zijlstra, utanríkisráðherra Hollands, hefur sagt af sér fyrir að hafa sagt ósatt um að hafa hitt Vladimir Putin, forseta Rússlands. Hann hélt því fram árið 2016 að hann hafði persónulega heyrt Putin tala árið 2006 um að útvíkka landamæri Rússlands og mögulega hernema Hvíta-Rússland, Úkraínu, Eystrasaltslöndin og mögulega Kasakstan.

Árið 2006 starfaði Zijlstra hjá Shell og ferðaðist til Rússlands með Jeroen van der Veer, þáverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Staðhæfing Zijlstra vakti athygli í gær samkvæmt Politco þegar hollenskt dagblað birti frétt um ummælin og að flokksmeðlimir hans hafi ekki trúað honum. Í samtali við blaðamann dagblaðsins Volkskrant viðurkenndi Zijlstra að hann hefði ekki verið staddur í sama herbergi og Putin heldur hefði hann heyrt frásögnina frá öðrum manni. Hann hafi sagst hafa heyrt ummæli Putin sjálfur til að verja heimildarmann sinn.



Samkvæmt Reuters hefur Zijlstra nú sagt af sér þó hann segist enn treysta heimildarmanni sínum. Hins vegar hafi trúverðugleiki hans sjálfs orðið fyrir miklum skaða og hann geti ómögulega haldið áfram í starfi utanríkisráðherra.



Hann sagði lygina hafa verið „stærstu mistök ferils síns“ og að Holland ætti skilið að vera með utanríkisráðherra með óflekkað mannorð.

Til stóð að Zijlstra myndi ferðast til Rússlands í dag og hitta Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Þar áttu þeir að ræða örlög MH17. Flugvélarinnar sem skotin var niður yfir Úkraínu árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×