Erlent

Árum Nassar á bak við lás og slá fjölgar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Vísir/Getty
Íþróttalæknirinn Larry Nassar var í dag dæmdur til 40 til 125 ára fangelsisvistar fyrir að misnota ungar fimleikakonur sem voru skjólstæðingar hans. Þetta er þriðji dómurinn sem fellur yfir Nassar og hefur hann nú alls verið dæmdur til minnst 300 ára fangelsisvistar.

Nassar var í desember síðastliðnum dæmdur til 60 ára fangelsis fyrir að eiga töluvert magn af barnaníðsefni og þá var hann dæmdur í janúar í allt að 175 ára fangelsi fyrir að misnota hóp fimleikakvenna. Talið er að Nassar hafi misnotað stöðu sína til að brjóta á minnst 265 ungum fimleikakonum.

Janice Cunningham, dómari í málinu, sagði að dómurinn myndi þó ekki binda endi á þjáningu fórnarlamba Nassar.

Afsökunarbeiðnin ósannfærandi

Nassar sjálfur las upp afsökunarbeiðni til stúlknanna, sem eru taldar minnst 265 talsins.

„Það er ómögulegt að lýsa því hvað mér þykir fyrir þessu,“ sagði Nassar.

„Ykkar vitnisburðir verða að eilífu mér í minni.“

Afsökunarbeiðni Nassar náði þó ekki að sannfæra dómarann.

„Ég er ekki sannfærð að þú skiljir raunverulega að það sem þú gerðir var rangt og hversu yfirþyrmandi áhrif þess voru á fórnarlömbin, fjölskyldur þeirra og vini,“ sagði Cunningham.

„Þú ert augljóslega í afneitun. Þú nærð þessu ekki.“


Tengdar fréttir

Nassar misnotaði 40 stelpur eftir að FBI fékk að vita af ásökunum

New York Times birti um helgina ítarlega grein þar sem farið var yfir mál kynferðisbrotamannsins og læknisins Larry Nassar. Það koma ýmislegt í ljós þegar blaðamenn New York Times settu upp allar upplýsingar sínar um málið inn á tímalínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×