Fótbolti

Gunnhildur Yrsa spilar með félagi sem var stofnað fyrir aðeins nokkrum dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir. Vísir/Getty
Íslenska landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er orðinn leikmaður bandaríska félagsins Utah Royals FC en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Gunnhildur Yrsa var búin að segja frá því að hún myndi spila í Bandaríkjunum á næsta tímabili en gaf ekki upp með hvaða liði hún ætlaði að spila.







Utah Royals FC er glænýtt félag en það var stofnað 1. desember 2017 eða fyrir aðeins nokkrum dögum síðan.

„Gunny er leikmaður sem passar vel inn í NWSL deildina því hún hefur spilað landsleiki á stórmótum og í deildum í Evrópu. Reynsla hennar mun nýtast liðinu vel,“ sagði þjálfarinn Laura Harvey í viðtali á heimasíðu Utah Royals.

„Eldmóður hennar inn á vellinum er smitandi og ég er mjög ánægður með að við náðum að ganga frá þessu,“ sagði Laura Harvey.

Gunnhildur Yrsa er 29 ára gömul og lék síðast með Valerenga í Noregi en hún var fyrirliði liðsins sem komst í bikarúrslitaleikinn í haust. Hún skoraði 5 mörk í 21 leik.

Gunnhildur Yrsa hefur skorað 7 mörk í 48 landsleikjum þar af þrjú mörk á síðasta ári.

„Ég er bæði spennt og þakklát fyrir tækifærið að spila með Utah Royals FC. Ég hef heyrt svo margt gott um Lauru þjálfara og ég veit að ég mun læra mikið af henni,“ sagði Gunnhildur Yrsa í samtali við heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×