Innlent

Segja uppsögn Atla Rafns vel ígrundaða

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Atla Rafn Sigurðarsyni hefur verið sagt upp störfum hjá Borgarleikhúsinu.
Atla Rafn Sigurðarsyni hefur verið sagt upp störfum hjá Borgarleikhúsinu. Vísir/Ernir
Borgarleikhúsið hefur sent frá sér tilkynningu vegna brottreksturs Atla Rafns Sigurðarsonar frá leikhúsinu. Þar segir að ákvörðunin hafi verið vel ígrunduð og tekin að vandlega athuguðu máli. Stjórn leikfélags Reykjavíkur og leikhússtjóri voru einhuga um ákvörðunina.

Frumsýningu á sýningunni Medeu hefur verið frestað og staðfestir leikhúsið í tilkynningunni að það sé vegna breytingar á leikarahópi Medeu og að einum af aðalleikurum sýningarinnar hafi verið sagt upp störfum hjá Borgarleikhúsinu.

Ný dagsetning á frumsýningu Medeu verður tilkynnt síðar.

Sagt upp vegna ásakana

Vísir greindi frá því í morgun að Atla Rafni hefði verið sagt upp störfum vegna ásakana sem settar hafa verið fram í tengslum við Metoo-byltinguna.

Atli Rafn hefur verið einn farsælasti leikari þjóðarinnar undanfarin árin. Hann er fastráðinn við Þjóðleikhúsið en er í ársleyfi til að sinna verkefnum í Borgarleikhúsinu.

Til stóð að Atli rafn færi með veigamikið hlutverk í Medeu eftir Evrípídes í leikstjórn Hörpu Arnardóttur, sem átti að vera jólasýning Borgarleikhússins. Þá átti Atli Rafn að fara með hlutverk Riff-Raff, aðstoðarmanns Frank-N-Furter, í Rocky Horror sem samkvæmt sýningaskrá stendur til að frumsýna í mars. Leikstjóri söngleiksins er Marta Nordal.

Þá hefur Atli Rafn jafnframt verið að leika í sýningunni Kartöfluæturnar eftir Tyrfing Tyrfingsson í leikstjórn Ólafs Egilssonar sem hefur verið til sýninga á fjölum Borgarleikhússins.

Vísi hefur ekki tekist að ná tali af málsaðilum, þeim Kristínu Eysteinsdóttir leikhússtjóra né Atla Rafni, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×