Innlent

Kosningaáróður Sjálfstæðismanna á kjörstað kærður

Jakob Bjarnar skrifar
Þeir sem kjósa utankjörstaða í Grindavík ættu ekki að þurfa að velkjast í vafa um hvar rétt er að setja X-ið.
Þeir sem kjósa utankjörstaða í Grindavík ættu ekki að þurfa að velkjast í vafa um hvar rétt er að setja X-ið.
Sýslumanninum á Suðurnesjum hefur borist kæra vegna þess sem kærandi, sem er framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, metur sem ótvíræðan kosningaáróður á kjörstað.

Um er að ræða áberandi kosningaskilti Sjálfstæðismanna á húsakynnum útibús sýslumannsins á Suðurnesjum í Grindavík. Sýslumaðurinn og lögreglan eru til húsa að Víkurbraut 25 í Grindavík. En, á Víkurbraut 27 er svo rekið félagsheimili Sjálfstæðisfélaganna. Samkvæmt upplýsingum Vísis hafa kosningaskrifstofur verið í þessu sama húsi áður.

Framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins hefur sent sýslumanni kröfu um að stöðva þegar í stað kosningu utan kjörfundar í Grindavík „vegna óleyfilegs kosningaáróðurs og kosningaspjalla. Enda óleyfilegt að reyna að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu með að hafa uppi merki stjórnmálasamtaka í húsakynnum þar sem kosning fer fram,“ segir í kærunni sem Vísir hefur undir höndum.

Ásdís Ármannsdóttir sýslumaður segir í samtali við Vísi að þar á bæ sé verið að skoða málið af fullri alvöru. En, hún geti ekki tjáð sig nánar um það á þessu stigi. Hún á meðal annars eftir að ræða við ráðuneytið og yfirkjörstjórn.

Innan Framsóknarflokksins er menn þeirrar meiningar að þetta hljóti að þýða að utankjörfundaratkvæðagreiðslan það sem af er verði að teljast ólögleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×