Innlent

Thomas Møller áfrýjar til Hæstaréttar

Birgir Olgeirsson skrifar
Thomas í dómsal þegar hann bar vitni við aðalmeðferð málsins í ágúst.
Thomas í dómsal þegar hann bar vitni við aðalmeðferð málsins í ágúst. vísir/eyþór
Thomas Møller Olsen hefur áfrýjað dómi sem hann hlaut fyrir bana Birnu Brjánsdóttur fyrir Hæstarétt.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins greinir frá þessu á vef sínum þar sem vitnað er í skriflegt svar Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara.

Thomas hlaut 19 ára fangelsisdóm fyrir að hafa orðið Birnu að bana í janúar síðastliðnum og fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.

Ef málið verður ódæmt í Hæstarétti fyrir 1. janúar mun það flytjast til Landsréttar. Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari sem sótti málið fyrir Héraðsdómi Reykjaness, sagði í samtali við Vísi í september að hún teldi líklegt að málið yrði eitt af fyrstu málunum sem fara fyrir Landsrétt ef því yrði áfrýjað.

Verði það raunin gæti þurft að taka allar vitnaleiðslur fyrir aftur.

Í Landsrétti er gert ráð fyrir að vitnaleiðslur séu teknar upp í héraðsdómi og spilaðar aftur í Landsrétti. Kolbrún sagði hins vegar að upptökur á vitnaleiðslum í þessum máli hefðu ekki hafist fyrr en á síðasta degi vitnaleiðsla og svo gæti því farið að flest vitni þyrftu að mæta fyrir í Landsrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×