Erlent

Viðvörun um banvæn skyndiflóð gefin út í Texas

Kjartan Kjartansson skrifar
Búist var við allt að 5-7 sentímetra úrkomu á klukkustund í Houston í gær.
Búist var við allt að 5-7 sentímetra úrkomu á klukkustund í Houston í gær. Vísir/AFP
Regn úr hitabeltisstorminum Harvey heldur áfram að berja Texas í Bandaríkjunum og varar Veðurstofa Bandaríkjanna í Houston við banvænum skyndiflóðum af völdum hennar. Staðfest er að tveir hafi látist í hamförunum.

Gríðarleg úrkoma hefur fylgt Harvey sem var öflugur fellibylur þegar hann gekk á land í Texas á föstudagskvöld en er nú flokkaður sem hitabeltisstormur.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, segir að í borgunum Houston og Corpus Christi hafi 50 sentímetra úrkoma þegar fallið. Von gæti verið á 40 sentímetrum til viðbótar áður en storminum slotar um miðja viku.

Harvey skilur eftir sig slóð eyðileggingar.Vísir/AFP
Öflugasti stormurinn í hálfa öld

Þúsundir manna eru án rafmagns í ríkinu og veðurofsinn hefur hamlað björgunarstarfi. Tveir hafa látist fram að þessu, í Houston og í nágrenni borgarinnar Rockport, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Reuters-fréttastofan segir að í Houston hafi kona látist í bíl sínum þegar hún ók eftir götu sem vatn hafði flætt yfir. Í Rockport fórst manneskja í eldi í húsi.

Átján hundruð hermenn hafa verið ræstir út til að hjálpa við björgunarstarf og viðgerðir.

Veðurstofan hefur jafnframt varað við því að stormurinn sé svo öflugur að sum svæði verði óíbuðarhæf í fleiri mánuði. Reuters segir að Harvey sé öflugasti stormur í Texas í fimmtíu ár.

Miklar skemmdir urðu á baptistakirkju í Rockport. Borgin er sögð hafa orðið einna verst úti í hamförunum.Vísir/AFP

Tengdar fréttir

Öflugasti fellibylurinn í þrettán ár

Versta óveður sem skollið hefur á meginlandi Bandaríkjanna í rúman áratug varð í nótt og dag þegar fellibylurinn Harvey gekk yfir landið. Yfir tvö hundruð þúsund manns eru án rafmagns. Neyðarástandi var lýst yfir í fimmtíu ríkjum þar sem samgöngur lömuðust og þúsundir neyddust til að flýja heimili sín vegna veðurofsans.

Einn látinn af völdum fellibylsins Harvey

Í Texas munu verða "gríðarleg og lífshættuleg flóð,“ eins og segir í viðvörun Fellibyljastofnunar Bandaríkjanna, nú þegar fellibylurinn Harvey heldur áfram ferð sinni inn til landsins. Harvey skall á ströndinni sem 4. stigs fellibylur, hinn stærsti til að ná meginlandi Bandaríkjanna í 13 ár. Hann hefur nú verið lækkaður niður í hitabeltisstorm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×