Formúla 1

Bílskúrinn: Varnarsigur í Ungverjalandi

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Sebastian Vettel fagnar ásamt öðrum verðlaunahöfum.
Sebastian Vettel fagnar ásamt öðrum verðlaunahöfum. Vísir/Getty
Sebastian Vettel á Ferrari kom fyrstur í mark í ungverska kappakstrinum í Formúlu 1 um liðna helgi. Hann var að glíma við stýrisvandamál í bíl sínum og hefði verið auðveld bráð fyrir Mercedes menn ef ekki hefði verið fyrir liðsfélaga Vettel, Kimi Raikkonen sem varði sinn mann vel en þurfti að bíta í það súra að fá ekki að taka fram úr Vettel.

Ferrari vann tvöfalt, Lewis Hamilton heiðraði samkomulag sitt við Valtteri Bottas, báðir McLaren bílarnir voru í stigasæti og Max Verstappen keyrði á liðsfélaga sinn, Daniel Ricciardo hjá Red Bull. Allt þetta í Bílskúrnum, uppgjöri hvers kappaksturs hér á Vísi.

Vettel baðaður í kampavíni.Vísir/Getty
43 stig Ferrari

Ferrari liðið hefur ekki leikið neinn feluleik með það að Vettel er númer eitt og Raikkonen númer 2. Vettel var að glíma við skekkju í stýrinu í bíl sínum sem ágerðist eftir því sem leið á keppnina. Hann hefði því verið auðveld bráð ef Hamilton eða Bottas hefðu komið aðvífandi að honum í vígahug.

Raikkonen hélt sér í öðru sæti á eftir liðsfélaga sínum alla keppnina og það skilaði því að hann sá um varnarvinnuna á meðan Vettel gat einbeitt sér óáreittur að því að halda bílnum á beinu brautinni og landa 25 stigunum.

Raikkonen biðlaði til Ferrari að fá að taka fram úr Vettel og vinna keppnina en var ítrekað hafnað. Nú má ætla að Raikkonen hafi sætt sig við örlögin, hann þurfi að lúta í lægra haldi fyrir Vettel. Að minnsta kosti á meðan Þjóðverinn er á undan í heimsmeistarakeppni ökumanna.

Ákvörðun Ferrari byggir samt einnig á því hvað er best fyrir liðið. Formúlu lið getur ekki gert meira á einni helgi en að landa fyrsta og öðru sæti. Ef Raikkonen hefði verið sleppt lausum hefði Vettel líklegast ekki geta varist áhlaupi Mercedes og þá hefði Ferrari ekki landað 43 stigum í Ungverjalandi.

Bottas leiðir Hamilton á brautinni í Búdapest um liðna helgi.Vísir/Getty
Hamilton og Bottas heiðursmenn

Valtteri Bottas á Mercedes var í góðum málum í þriðja sæti, megnið af keppninni. Liðsfélagi hans, Lewis Hamilton, sem er í harðri baráttu við Vettel í heimsmeistarakeppni ökumanna fékk að fara fram úr og upp í þriðja sætið, enda var hann á þeim tímapunkti talsvert fljótari á brautinni. Skilyrði fyrir því var þó að hann myndi færa Bottas þriðja sætið aftur ef hann næði ekki að taka fram úr Ferrari ökumanni eða tveimur.

Staðan undir lok keppninnar var sú að Hamilton átti ekki möguleika og Bottas var kominn með Verstappen í skottið og var í harðri baráttu við hann. Hamilton gerði það sem enginn bjóst við og hleypti Bottas aftur fram úr í síðustu beygjunni. Með því tók hann stórt skref í þá átt að halda friðinn innan liðsins aðeins lengur en um leið tók hann þá áhættu að Verstappen sniglaðist fram úr honum um leið en heimsmeistarinn fyrrverandi náði að skjóta sér inn á milli og tryggja sér fjórða sæti.

Fernando Alonso á ferð í Ungverjalandi.Vísir/Getty
Upprisa McLaren eða skammgóður vermir?

Báðir McLaren ökumenn í stigasæti. Fernando Alonso og Stoffel Vandoorne náðu að lyfta McLaren liðinu af botni stigatöflu bílasmiða. Þeir höfnuðu í sjötta og tíunda sæti.

Skyndilega upprisa stórveldisins McLaren-Honda eða skammgóður vermir? Skammgóður vermir, klárlega. Brautin í Ungverjalandi hentar bílnum einstaklega vel enda orðið ljóst að undirvagn bílsins er býsna góður og sennilega með þeim bestu í mótaröðinni. Aflið er enn af skornum skammti og það er því ljóst að helmingurinn af jöfnunni er enn ekki til staðar. Honda þarf að stíga upp og fjölga hestunum undir vélarhlífinni sem fyrst. Það þarf raunar að bæta heilu stóði við.

Næstu keppnir eftir sumarfrí eru Spa í Belgíu og Monza á Ítalíu þar er aflið mikilvægt og ef Godzilla mætir ekki með allt sitt afl í Honda mótorinn eftir sumarfrí þá er ljóst að McLaren liðið mun eiga erfitt uppdráttar strax í næstu keppnum.

Max Verstappen og Daniel Ricciardo á Red Bull skella saman á fyrsta hring. Verstappen var algjörlega um að kenna.Vísir/Getty
Verstappen á villigötum

Max Verstappen sprengdi 17. júníblöðru liðsfélaga síns, Daniel Ricciardo og henti sykrufrauðinu hans í jörðina og stappaði á því strax á fyrsta hring.

Ricciardo var aldeilis búinn að berja sér á brjóst og lofa látum og framúrakstri. Verstappen keyrði á Ricciardo og sprengdi einhverjar vökvaleiðslur sem guðuðu glussa um alla braut.

Verstappen sprengdi dekk á bíl Ricciardo sem snerist svo á brautinni og var úr leik. Mikið svekkelsi fyrir Ástralann. Verstappen baðst afsökunar og sagðist ætla að tala við Ricciardo og biðja hann persónulega afsökunar. Verstappen vissi upp á sig vitleysuna og þarf að læra af þessu. Kappið bar hann klárlega ofurliði enda fráleitt að reyna framúrakstur á þessum stað, í þeirri stöðu sem Verstappen var í.

Valtteri Bottas var að mati blaðamanns besti ökumaður keppninnar ef horft er á stóru myndina.Vísir/Getty
Ökumaður keppninnar

Valtteri Bottas gerði sér lítið fyrir og saxaði á forskot liðsfélaga síns í keppni ökumanna um þrjú stig. Munurinn á Mercedes félögunum er svo lítill að ómögulegt er að segja til um að annar þeirra eigi rétt á að hafa stöðu fyrsta ökumanns.

Munurinn á Hamilton og Bottas er 19 stig, þeim breska í vil. Bottas er með þessu að gera sig líklegan til að stela stigum af Hamilton áfram á tímabilinu og stefna titilbaráttu þeirra beggja í hættu. Hins vegar er ljóst að góðviljuð barátta innan liðsins er líkleg til að tryggja Mercedes liðinu góða stigasöfnun í keppni bílasmiða.


Tengdar fréttir

Vettel: Ég var mjög upptekinn alla keppnina

Sebastian Vettel á Ferrari vann sína fjórðu keppni á tímabilinu í dag. Hann jók forskot sitt í heimsmeistarakeppni ökumanna upp í 14 stig. Hver sagði hvað eftir keppnina?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×