Erlent

Sex táningsstúlkur fá ekki að fylgja vélmenni sínu til Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Stúlkurnar sex eru í öðru af tveimur liðum sem ekki fengu vegabréfsáritanir.
Stúlkurnar sex eru í öðru af tveimur liðum sem ekki fengu vegabréfsáritanir.
Sex táningsstúlkum frá Afganistan hefur verið meinað um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna, þar sem þær ætluðu sér að taka þátt í alþjóðlegri vélmennakeppni. Um margra mánaða skeið hafa stúlkurnar unnið að vélmenni sem flokkar bolta til þess að keppa á mótinu.

Þrátt fyrir að reyna tvisvar sinnum að fá vegabréfsáritanir var stúlkunum neitað. Afganistan er á lista yfir þau lönd sem ferðabann Donald Trump nær til en hins vegar fá lið frá Íran og Súdan, sem einnig eru á listanum að ferðast til Washington og keppa á mótinu.

Önnur lið sem keppa á mótinu First Global Challenge, fengu hráefni sín í mars, en vélmennahlutar og raftæki ollu usla í tollinum í Afganistan. Því gripu stúlkurnar til þess ráðs að byggja vélmenni sitt úr hlutum sem þær fundu á heimilum sínum í borginni Herat.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna vill ekki tjá sig um sérstök mál varðandi vegabréfsáritanir, samkvæmt frétt New York Times, en þar kemur fram að mjög erfitt sé að fá vegabréfsáritanir frá Afganistan.

Stúlkurnar voru miður sín eftir að þeim var tilkynnt að beiðnum þeirra hefði verið hafnað. Þær ferðuðust tvisvar sinnum til sendiráðs Bandaríkjanna í Kabul, sem er langt ferðalag um hættuleg svæði, til þess að reyna að fá vegabréfsáritun. Þær munu því þurfa að fylgjast með vélmenni sínu í gegnum Skype.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×