Innlent

Varpar ábyrgð á skipan dómara við Landsrétt á Alþingi og forseta

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Lögmaður íslenska ríkisins segir Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra ekki ábyrga fyrir skipun dómara við Landsrétt.
Lögmaður íslenska ríkisins segir Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra ekki ábyrga fyrir skipun dómara við Landsrétt. Vísir/Ernir

Vísa á máli Ástráðs Haraldssonar gegn íslenska ríkinu frá vegna þess að ekki gangi upp að höfða mál gegn dómsmálaráðherra, sem ekki hafi tekið neina ákvörðun í málinu heldur aðeins gert tillögur til Alþingis og að skipunarvald liggi hjá forseta Íslands. Þetta er mat lögfræðings íslenska ríkisins í máli sem Ástráður Haraldsson, einn umsækjenda um stöðu dómara við Landsrétt, höfðaði. Þetta kemur fram í frétt á vef Ríkisútvarpsins.

Ásamt Ástráði höfðaði Jóhannes Rúnar Jóhannsson einnig mál gegn ríkinu. Þeir voru tveir af þeim fjórum umsækjendum um stöðu dómara við Landsrétt sem dómnefnd mat á meðal þeirra 15 hæfustu en voru ekki skipaðir dómarar eftir tillögu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra. 

Ýmis rökstuðningur hefur verið reifaður fyrir breytingum ráðherrans en við skiptin tók hún fjóra karla út og setti tvær konur inn og tvo karla. Björt Ólafsdóttir, samráðherra Sigríðar í ríkisstjórn, fagnaði því til dæmis að dómsmálaráðherra hefði stigið það skref að jafna kynjahlutföll í Landsrétti frá því sem tillaga hæfnisnefndar gerði ráð fyrir.

Ástráður Haraldsson.

Lögmaður ríkisins hafnar því að Sigríður hafi gert nokkuð á hlut Ástráðs. Hún hafi talið mat dómnefndar gallað, þar sem ekki hafi verið litið nægilega til dómarareynslu annarra umsækjenda. Hún hafi styrkst í þeirri trú við lestur andmælabréfa frá tveimur þeirra sem dómnefnd mat ekki meðal þeirra fimmtán hæfustu, en voru á endanum skipaðir í embætti. 

Í greinargerð lögmannsins segir einnig að hún hafi ekki brotið gegn hagsmunum Ástráðs, enda sé hann ekki hæfari en þeir fjórir sem voru færðir inn á listann og hafi ekki fært nein rök fyrir því að hann sé það.

Þá segir að krafa hans um viðurkenningu á skaðabótaskyldu sé vanreifuð. Ríkið hafnar einnig kröfu Ástráðs um miskabætur.

Aðalmeðferð í málum Ástráðs og Jóhannesar Rúnars fer fram þann 11. ágúst.


Tengdar fréttir

Ráðherra felur LEX málið

Sigríður starfaði hjá lögmannsstofunni LEX sem héraðsdómslögmaður árin 2007 til 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×