Innlent

Aðalmeðferð í máli Thomasar Møller eftir mánuð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Thomas Møller Olsen við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness.
Thomas Møller Olsen við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness. vísir/vilhelm
Aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara gegn grænlenska skipverjanum Thomasi Møller Olsen mun hefjast þann 18. júlí klukkan 9:15. Þetta var ákveðið við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Ástæðan er sú að þann dag kemur Polar Nanoq til hafnar en skipverjar eru á meðal vitna í málinu. Skipið verður næst í höfn á Íslandi í desember og ákvað dómari með tilliti til þessa að hefja aðalmeðferð þennan dag. Thomas mun fyrstur bera vitni og í framhaldinu önnur vitni í málinu.

Bæði verjandi og saksóknari lögðu fram frekari gögn í málinu við fyrirtöku málsins. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sem sækir málið lagði fram gögn er sneru að fingrafari sem fannst við rannsókn málsins en reyndist erfitt að skoða hérlendis. Var það sent utan til Noregs til nánari skoðunar.

Þá lagði verjandinn, Páll Rúnar M. Kristjánsson, fram samantekt fjölmiðlaumfjöllunar og safn ljósmynda. Hann féll um leið frá kröfu um afhendingu farsímagagna, í bili hið minnsta, þangað til annarra gagna hefur verið aflað.

Thomasi Møller Olsen er í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði og verður þar að óbreyttu þar til dómur verður kveðinn upp sem ætti að vera um miðjan eða lok ágúst.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×