Erlent

Gera húsleit á heimili eins árásarmannsins

Atli Ísleifsson skrifar
Við Kings Road í Barking í morgun.
Við Kings Road í Barking í morgun. Vísir/afp
Breska fréttastofan Sky segir að lögregla hafi í morgun gert húsleit á heimili eins árásarmannsins í hryðjuverkaárásinni í London í gær. Árásarmennirnir þrír voru allir skotnir til bana af lögreglu innan við átta mínútum frá því að fyrsta tilkynninginn barst um að hvítum sendiferðabíl hafi verið ekið á gangandi vegfarendur á London Bridge.

Sky segir frá því að fjórir karlmenn og ein kona hafi verið handtekin við húsleitina í hverfinu Barking í austurhluta London í morgun. Konunni hefur nú verið sleppt.

Damien Pettit, íbúi í húsinu, segir að lögregla hafi sýnt sér mynd af hinum grunaða og sagði hann þeim að hann líktist einum nágranna sínum.

Pettit segir manninn hafa verið viðkunnanlegan, með ung börn, og búið í blokkinni í um þrjú ár. Hafi hann áður starfað fyrir Transport for London – almenningssamgöngum London. „Ef þetta er hann þá er það ekki sá maður sem við þekktum,“ segir Pettit.

Sjö eru nú látnir og 48 særðir eftir árásina í gærkvöldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×