Erlent

Kallaði árásarmennina hugleysingja og grýtti þá með flöskum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla brást afar fljótt við og var fjölmennt lið lögreglu mætt á svæðið mínútum eftir að útkallið barst.
Lögregla brást afar fljótt við og var fjölmennt lið lögreglu mætt á svæðið mínútum eftir að útkallið barst. Vísir/afp
Lundúnabúar sem staddir voru í miðri hryðjuverkaárás í miðbæ Lundúna í gær brugðust margir hverjir við með því að kasta lausum hlutum í árásarmennina til þess að reyna að hefta för þeirra. Reuters greinir frá.

Árásarmennirnir þrír gengu um á milli veitingastaða í Borough Market, eftir að þeir höfðu keyrt á hóp gangandi vegfarenda á London Bridge sem er í næsta nágrenni.

Voru þeir vopnaðir hnífum og virðast þeir hafa ráðist á fólk af handahófi áður en þeir voru skotnir til bana af lögreglumönnum, aðeins átta mínútum eftir að fyrsta útkall barst.

Áður en lögregla mætti á svæðið voru það þó gestir veitingahúsa og bara í Borough Market sem brugðust fyst við.

Í samtali við Sky News sagði Gerard Vowles, sem staddur var á svæðinu að hann hafi haldið að verið væri að grínast þegar einhver kallaði „ég hef verið stunginn“

Hann hafi þá litið upp og séð árásarmennina stinga mann og konu. Þegar þeir yfirgáfu svæðið kallaði Vowles á eftir þeim:

„Hey, hugleysingjar“

Hann hafi síðan reynt að ná athygli þeirra með því að kasta stólum og flöskum í þá í von um að þeir myndi elta sig.

„Ég hugsaði að ef ég gæti komið þeim út á götu gæti lögreglan stoppað þá,“ sagði Vowles.

Þá hafa lögregluyfirvöld hrósað lögreglumanni sem særðist í árásinni. Var hann aðeins vopnaður lögreglukylfu en tókst samt sem áður við árásarmennina áður en aðrir lögreglumenn yfirbuguðu þá.

Lögregla hefur borið kennsl á árásarmennina þrjá. Þá hefur verið staðfest að sjö létust í árásinni og minnst 48 eru særðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×