Formúla 1

Alonso mun ekki vinna á Renault bíl 2018

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Fernando Alonso fagnar heimsmeistaratitlinum 2005 í Renault litunum.
Fernando Alonso fagnar heimsmeistaratitlinum 2005 í Renault litunum. Vísir/Getty
Fernando Alonso, ökumaður McLaren liðsins í Formúlu 1 og nú Indy 500 vill aka bíl sem getur unnið keppnir á næsta ári. Renault liðið segir að bíll þess muni fyrst vera sigursæll árið 2020.

Alsono og Renault leiddu saman hesta sína í Formúlu 1. Alonso varð heimsmeistari ökumanna á Renault bíl árin 2005 og 2006 og batt þar með enda á einokun Michael Schumacher á titlinum.

Orðrómur er á kreiki um að Alonso hafi nú þegar leitað á náðir sinna fyrri félaga hjá franska framleiðandanum um mögulegt sæti á næsta ári. Ekkert hefur verið staðfest um það.

Alonso hefur lýst því yfir að hann vilji vera í bíl sem getur unnið keppnir strax á næsta ári. Hann hefur þurft að sætta sig við skarðan hlut sem ökumaður McLaren-Honda undanfarin tvö ár. Lítið virðist ætla að breytast til batnaðar hjá gamla risanum í ár.

Alain Prost, sérstakur ráðgjafi Renault og fyrrum heimsmeistari í Formúlu 1 segir að ólíklegt sé að Renault bíllinn verði meðal fremstu bíla fyrr en árið 2020.

Það væri því líklega ekki rétt fyrir Alonso að fara þangað ef hann vill vinna strax á næsta ári. Alonso mun ekki taka þátt í Mónakó kappakstrinum um komandi helgi en hann hefur verið í Bandaríkjunum undanfarið að undirbúa þátttöku í Indy 500, þar sem hann mun keppa á sunnudaginn, sama dag og kappaksturinn fer fram í Mónakó. Sæti hans hjá McLaren tekur kempan Jenson Button.


Tengdar fréttir

Button tekur sæti Alonso í Mónakó

Fernando Alonso kom öllum á óvart í vikunni þegar hann tilkynnti að hann myndi sleppa Mónakó kappakstrinum í ár til að taka þátt í Indy 500 kappakstrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×