Fótbolti

Dómarinn í sigrinum á Englandi dæmir úrslitaleik Evrópudeildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Damir Skomina sendir Jamie Vardy illt auga í leik Íslands og Englands á EM 2016.
Damir Skomina sendir Jamie Vardy illt auga í leik Íslands og Englands á EM 2016. vísir/getty
Þjóðverjinn Felix Brych dæmir úrslitaleik Juventus og Real Madrid í Meistaradeild Evrópu á Þúsaldarvellinum í Cardiff laugardaginn 3. júní næstkomandi.

Brych, sem er 41 árs, hefur verið alþjóðlegur dómari síðan 2007. Hann dæmdi á HM 2014 og EM 2016. Þá dæmdi Brych úrslitaleik Evrópudeildarinnar 2014.

Brych hefur dæmt fimm leiki í Meistaradeildinni í vetur, þ.á.m. leik Juventus og Porto í 16-liða úrslitum.

Slóveninn Damir Skomina dæmir úrslitaleik Evrópudeildarinnar milli Ajax og Manchester United á Friends Arena í Stokkhólmi 24. maí næstkomandi.

Skomina er Íslendingum að góðu kunnur en hann dæmdi leik Íslands og Englands í 16-liða úrslitum á EM í Frakklandi síðasta sumar.

Skomina, sem er fertugur, hefur dæmt á tveimur Evrópumótum (2012 og 2016) auk þess sem hann hefur dæmt fjölda leikja í Meistara- og Evrópudeildinni.

Leikurinn í Stokkhólmi verður hins vegar fyrsti úrslitaleikurinn sem Skomina dæmir.

Felix Brych dæmir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×