Fótbolti

Þjálfari Ajax: Óþarfa væl í Mourinho

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Peter Bosz er að gera stórkostlega hluti með lið Ajax.
Peter Bosz er að gera stórkostlega hluti með lið Ajax. vísir/getty
Man. Utd mun spila tvo leiki áður en það spilar úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Ajax í næstu viku. Jose Mourinho, stjóri Man. Utd, hefur vælt aðeins yfir því.

Í kvöld spilar United gegn Southampton og svo um helgina á United leik gegn Crystal Palace.

Á sama tíma fær Ajax rúma viku til þess að undirbúa sig fyrir leikinn. United mun hafa spilað átta fleiri leiki en Ajax í vetur er kemur að úrslitaleiknum í Stokkhólmi.

Þjálfari hollenska liðsins, Peter Bosz, gefur lítið fyrir vælið í portúgalska stjóranum.

„Ef þið skoðið hvernig hann stillir upp í vetur þá er hann eiginlega með tvö mismunandi lið. Eitt lið fyrir Evrópudeildina og annað fyrir ensku deildina,“ sagði Bosz.

„Ef leikmennirnir sem spila í Evrópudeildinni spila ekki um næstu helgi þá munu þeir hafa sama tíma og við til þess að undirbúa sig og hvílast. Sjáið svo allan fjöldann af leikmönnum sem Mourinho hefur úr að velja.“

Ajax er loksins farið að láta til sín taka í Evrópuboltanum á ný og lið Bosz er ótrúlega spennandi. Meðalaldur liðsins er iðulega rúm 20 ár og liðið spilar ákaflega skemmtilegan fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×