Innlent

Fylgjast betur með í bænum eftir hvarf Birnu

Snærós Sindradóttir skrifar
Myndavélarnar á horni Klapparstígs eru þær síðustu sem námu ferðir Birnu Brjánsdóttur.
Myndavélarnar á horni Klapparstígs eru þær síðustu sem námu ferðir Birnu Brjánsdóttur. vísir/eyþór
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur komið upp 25 nýjum eftirlitsmyndavélum vítt og breitt um miðbæinn. Unnið er að því að fá heimildir fyrir átta myndavélum til viðbótar en búnaðurinn er til staðar og er tilbúinn að vera tekinn í gagnið.

Myndavélarnar eru settar upp á svæðinu í kringum Kvosina, Laugaveg, Hverfisgötu og Skólavörðustíg. Myndavélarnar eru mun fullkomnari en verið hefur og gefa skýrari mynd en myndgæði myndavéla hefur verið ábótavant eftir myrkur.

Eftir hvarf Birnu Brjánsdóttur í janúar vöknuðu spurningar um öryggi almennings í miðbænum. Í myrkri námu eftirlitsmyndavélar miðbæjarins ekki bílnúmer, hreyfi­skynjarar fóru ekki í gang ef gengið var framhjá vélunum og sum svæði voru ókortlögð. Af tólf vélum sem komið var upp árið 2012 voru fjórar orðnar óvirkar.

Eftirlitsmyndavélar á horni Klapparstígs voru þær síðustu til að nema ferðir Birnu Brjánsdóttur að morgni 14. janúar. Hreyfiskynjari á myndavél við Laugaveg 31 fór ekki í gang þegar Birna gekk fram hjá en það truflaði rannsókn lögreglu og gerði það að verkum að ekki er til myndband af því þegar Birna fór upp í rauða Kia Rio bílinn sem Thomas Møller Olsen ók umrædda nótt.


Tengdar fréttir

Helmingi fleiri myndavélar þarf í miðbænum

Lögreglan segir eftirlitsmyndavélakerfið í miðbænum hafa reynst vel í gegnum tíðina en aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að helmingi fleiri vélar þurfi svo vel eigi að vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×