Viðskipti innlent

Einar nýr framkvæmdastjóri þjónustuupplifunar hjá Advania

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einar Þórarinsson.
Einar Þórarinsson. Mynd/Aðsend
Einar Þórarinsson hefur verið ráðinn forstöðumaður þjónustuupplifunar hjá Advania. Í starfinu leiðir hann hóp sem hefur það meginverkefni að skilgreina og ýta í framkvæmd aðgerðum sem stuðla að enn betri upplifun viðskiptavina. Á annan tug starfsmanna eru í hópnum sem heyrir undir þjónustu- og markaðssvið Advania.

„Ég er mjög spenntur fyrir að fá að vinna með þessum öfluga hópi að þeim verkefnum sem framundan eru“ segir Einar. „Eitt verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að ná betur utan um þjónustuveitingu Advania í öllum snertingum sem við eigum við viðskiptavini og við munum vinna heildstætt að því að gera upplifun þeirra enn betri en áður,“ er haft eftir Einari í tilkynningu frá Advania.

Einar hefur starfað sem forstöðumaður ferla og innri upplýsingatækni hjá Advania frá árinu 2014 en hann hóf störf hjá fyrirtækinu árið 2011, þá sem forstöðumaður þjónustu á rekstrarlausnasviði. Áður en hann byrjaði hjá Advania var hann forstöðumaður upplýsingatæknisviðs hjá Vodafone og gegndi hann ýmsum stjórnunarstöðum hjá fyrirtækinu á árunum 2000-2011. Hann er kvæntur Valborgu Ragnarsdóttur, leikskólakennara og saman eiga þau tvö börn. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×