Innlent

Hún vill starfsheitið útgerðarprinsessan

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hún byrjaði tólf ára gömul á sjó og undirbýr nú sína fimmtu vertíð sem skipstjóri á strandveiðibát, stúlkan sem ögrar starfsheiti trillukarlsins. Rætt var við Halldóru Unnarsdóttur skipstjóra í frétt Stöðvar 2 frá Snæfellsnesi, sem sjá má hér að ofan. 

Halldóra Kristín segist hafa byrjað tólf ára gömul á grásleppu með föður sínum og afa en hún býr sig nú undir strandveiðarnar, sem hefjast í næsta mánuði. 

„Þetta verður fimmta sumarið mitt sem skipstjóri á strandveiðum. Ein,“ segir Halldóra. 

Hún segist hafa verið hvött af pabba sínum til að afla sér skipstjórnarréttinda og nú er hún að gera trilluna Andra SH klára á Rifi fyrir vertíðina.

„Það er byrjað að spasla og mála og skipta um allskonar sem þarf að laga,“ segir hún um verkefnin þessa dagana. 

-Það er ekki hægt að kalla þig trillukarl?

„Nei. Ég hef kallað mig útgerðarprinsessan. Ég vil hafa aðeins flottari nöfn yfir þessu heldur en aðrir.“

Halldóra er að undirbúa trilluna Andra SH á Rifi þessa dagana fyrir strandveiðarnar, sem hefjast 2. maí.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Hún segist vita um eina aðra stúlku á Snæfellsnesi sem er skipstjóri á strandveiðunum og segir þetta ekki starf sem karlar eigi að einoka. Og henni aflast vel. 

„Ég toppa hvert sumar, eftir hvert annað. Þeir verða oft pirraðir út í mig, strákarnir, að ég skuli vera komin á undan þeim í land. Ég virðist finna fiskinn betur en þeir. Þó að ég sé ekki á hraðasta bátnum.“ 

-Þannig að þú ert fiskin? 

„Já. Það eru einhverjir hæfileikar sem ég hef erft af afa mínum og pabba mínum, - að finna fiskinn.“ 

Nánar er rætt við Halldóru í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 sem fjallar um útgerðarstöðina Snæfellsbæ.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×