Erlent

Bandarískt flugmóðurskip við strendur Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
USS Carl Vinson í Suður-Kínahafi.
USS Carl Vinson í Suður-Kínahafi. Vísir/AFP
Flugmóðurskipið USS Carl Vinson er nú statt við strendur Suður-Kóreu þar sem það tekur þátt í árlegum heræfingum Bandaríkjanna og Suður-Kóreu. Yfirvöld í Norður-Kóreu hóta miskunnarlausum árásum brjóti flugmóðurskipið gegn „fullveldi eða virðingu“ ríkisins.

Þeir segja, eins og þeir gera á hverju ári, að heræfingarnar séu undirbúningur fyrir árásir á Norður-Kóreu og að koma flugmóðurskipsins sé hluti af þeirri „glæfralegu“ áætlun. Á opinberum fréttavef Norður-Kóreu, KCNA, segir að flugvélar af skipinu hafi æft árásir á her Norður-Kóreu.

Mikil spenna er á Kóreuskaganum og í nærliggjandi ríkjum vegna kjarnorkuvopna- og eldflaugatilrauna Norður-Kóreu. Fyrr í mánuðinum skutu Norður-Kóreumenn fjórum eldflaugum að Japan. Þrjár af þeim lentu um 300 kílómetra frá ströndum Japan. Þar var ekki um tilraunaskot að ræða, heldur æfingu fyrir kjarnorkuárásir á herstöðvar Bandaríkjanna í Japan.

Kínverjar hafa einnig mótmælt heræfingunum og segja að þær dragi ekki úr spennunni. Yfirvöld þar hafa bæði kallað eftir því að Norður-Kóreu hætti tilraunum sínum og að Bandaríkin og Suður-Kóreu hætti heræfingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×