Fótbolti

Belgía stórveldið í Evrópudeildinni í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olivier Deschacht, varnarmaður Anderlecht, var alveg til að fagna sæti í 16 liða úrslitum ber á ofan þrátt fyrir kuldann í Sánkti Pétursborg í gær.
Olivier Deschacht, varnarmaður Anderlecht, var alveg til að fagna sæti í 16 liða úrslitum ber á ofan þrátt fyrir kuldann í Sánkti Pétursborg í gær. Vísir/Getty
Þrjú belgísk félög komust áfram í sextán liða úrslit Evrópudeildarinnar en fyrstu umferð útsláttarkeppninnar lauk í gærkvöldi.

Þetta er sögulegur árangur hjá Belgum því aldrei áður hafa þrjú belgísk félög komst í sextán liða úrslit í sömu Evrópukeppni á sama tímabili. Alls eiga tólf lönd lið í pottinum þegar dregið verður í Evrópudeildinni í dag.

Anderlecht sló út Zenit Saint Petersburg frá Rússlandi á fleiri mörkum skoruðum á útivelli þrátt fyrir að hafa tapað seinni leiknum 3-1.

Genk sló út Astra Giurgiu frá Rúmeníu 3-2 samanlagt eftir 1-0 heimsigur í seinni leiknum.

Gent sló út Tottenham 3-2 eftir 2-2 jafntefli í gær í seinni leik liðanna á Wembley í London. Tottenham var annað enska liðið til að detta úr keppni en Southampton komst ekki upp úr riðlakeppninni.

Belgar eru stórveldið í Evrópudeildinni í ár enda með fleiri lið á lífi í keppninni en Englendingar og Spánverjar til samans.

Spánverjar hafa verið áberandi í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar undanfarin ár en núna er bara Celto Vigo eftir þar sem Athletic Bilbao og Villarreal féllu bæði úr leik í 32 liða úrslitunum.

Nú er það spurningin hvort valdataflið sé eitthvað að breytast og belgísku félögin að koma svona sterk upp eða hvort að þetta sé eitthvað tilfallandi og að heppnin hafi hreinlega verið með Belgunum í þetta skiptið.

Þjóðir sem eiga lið í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar:

Belgía 3 lið (Anderlecht, Genk, Gent)

Rússland 2 lið (Krasnodar, Rostov)

Þýskaland 2 lið (Borussia Mönchengladbach, Schalke 04)

Kýpur (APOEL)

Danmörk (FC Kaupmannahöfn)

England (Manchester United)

Frakkland (Lyon)

Grikkland (Olympiacos)

Ítalía (Roma)

Holland (Ajax)

Spánn (Celta Vigo)

Tyrkland (Besiktas)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×