Innlent

Ekki ákveðið hvenær yfirheyrslur fara næst fram

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn sem er í haldi vegna málsins er hér leiddur af lögreglu úr Héraðsdómi Reykjaness.
Maðurinn sem er í haldi vegna málsins er hér leiddur af lögreglu úr Héraðsdómi Reykjaness. Vísir/Anton Brink
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær maðurinn sem grunaður er um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana í lok síðasta mánaðar verður næst yfirheyrður. Hann var síðast yfirheyrður á föstudag en gæsluvarðhaldsúrskurðurinn yfir honum rennur út á fimmtudaginn kemur.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild, segist þó telja að yfirheyrslur fari fram áður úrskurðurinn rennur út, en telja má líklegt að lögregla fari fram á áframhaldandi varðhald yfir manninum. Aðspurður segir hann rannsókn málsins í fullum gangi þó fátt nýtt hafi komið fram um helgina.

Þá er niðurstaðna úr lífsýnarannsókn, sem send voru utan, enn beðið. Grímur segir málið í forgangi úti og að bundnar séu vonir að þær liggi fyrir í þessari viku.

Grímur segir jafnframt að búast megi við að rannsóknin taki nokkrar vikur til viðbótar. Verið sé að safna gögnum sem síðan verða send héraðssaksóknara. Lögregla og ákæruvald hafa frá handtöku tólf vikur til að gefa út ákæru. Maðurinn sem grunaður er, skipverji á togaranum Polar Nanoq, var handtekinn 18. janúar síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×