Handbolti

Rúnar: Allt saman mjög jákvætt á þessu móti

Arnar Björnsson skrifar
„Ég held að Frakkar hafi átt þetta skilið. En við spiluðum á köflum svakalega vel. Það vantaði herslumuninn eins og kannski allt mótið,“ sagði Rúnar Kárason eftir leikinn en hann var markahæstur með sjö mörk.

„Við erum að kasta boltanum frá okkur nokkrum sinnum í hraðaupphlaupi og þeir ná að svara með marki. Við erum í raun að refsa sjálfum okkur fyrir það hvað við erum að standa hrikalega vel í vörninni. Ég veit ekki hvernig prósentuhlutfallið er en mér fannst þeir bara ekki geta neitt á móti okkur þegar við spiluðum uppstillta sókn.

„Það er mjög jákvætt en ég er mjög svekktur að missa þá fram úr okkur í seinni hálfleik. Ef leikurinn hefði haldist aðeins jafn lengur þá helt ég að þeir hafi átt í hrikalegum vandræðum. Mér fannst við vera með yfirhöndina á mörgum sviðum leiksins. Þessi reynsla þeirra í svona jöfnum leikjum skilur á milli.“

Spilaði liðið betur eða verr en þú bjóst við fyrir mótið?

„Það sem er mest svekkjandi í þessu er að í riðlinum eru þrjú mörk sem skilja að annað og fjórða sætið. Okkur vantar eitt mark til að gera jafntefli við Slóveníu, eitt mark til að vinna Túnis og eitt mark til að vinna Makedóníu. Þá hefði þetta litið allt öðruvísi út. Þá hefðum við farið inn í léttari 16-liða úrslitaleik og sjálfstraustið í liðinu hefði verið allt annað.

„Framan af var þetta hrikalega flottur leikur hjá okkur. Ég er stoltur af því hvernig margir eru að spila hérna, menn sem ekki eru vanir að spila svona leiki og ég er þar með talinn. Mótið er heilt yfir frábært varnarlega hjá okkur en við erum að gera of mörg mistök á úrslita „mómentum“. Það er eitthvað sem við verðum að læra af.

„Þegar við fáum Aron Pálmarsson inn í þetta aftur að þá erum við komnir með betra lið. Við erum líka búnir að læra hvernig á að draga vagninn án hans. Ég held að það sé allt saman mjög jákvætt það sem hefur verið í gangi á þessu móti,“  sagði Rúnar sem varð markahæstur í íslenska liðinu hér í Frakklandi, skoraði 29 mörk.


Tengdar fréttir

Ólafur: Var erfitt að gera leik úr þessu

Ólafur Guðmundsson spilaði vel gegn Frökkum í kvöld en það var ekki nóg þegar strákarnir okkar féllu úr leik í 16-liða úrslitum á HM í handbolta. Frakkland vann að lokum sex marka sigur, 31-25.

Guðjón: Mjög jákvæður á framhaldið

"Það er auðvitað leiðinlegt að þetta sé búið en ég er ótrulega ánægður og stoltur af strákunum,“ segir landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson eftir tapið gegn Frökkum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×