Sport

Júlían: "Markmiðið er að verða einn af þremur bestu“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Júlían J.K. Jóhannsson, kraftlyftingamaður, átti frábært ár. Hann er í fimmta sæti á heimslistanum í +120 kg flokki en hápunktur ársins hjá honum var þegar hann vann gull í réttstöðulyftu á sínu fyrst HM fullorðinna. Hann hefur verið einn sá besti í unglingaflokkum undanfarin ár.

„Helst stendur upp úr að klára unglingamótin, bæði EM og HM, og vinna þau sem er búið að vera draumur lengi og það með töluverðum yfirburðum. Þar náði ég að skipa mér í fremstu röð. Svo var það klárlega að koma inn á fyrsta mótið mitt í opnum flokki og vinna þar gull í einni grein sem var frábært,“ segir Júlían.

„Þar tók ég 380 kíló í réttstöðulyftu sem var markmið sem ég var búinn að vera með upp á vegg hjá mér í átta ár. Þetta var eitthvað sem ég var búinn að stefna að og er Evrópumót. Þetta hlýtur að standa upp úr.“

Júlían keppir næst á Reykjavíkurleikunum og eftir það keppir hann á Arnold Classic. Stefnan er tekin á heimsleikana í kraftlyftingum eftir fjögur ár, en þeir eru það sem sportið snýst um.

„Markmiðið er að verða einn af þremur bestu í mínum þyngdarflokki í heiminum,“ segir Júlían, en fær hann nú ekki smá pásu yfir jólin?

„Ég mun eitthvað hvíla mig. Á milli æfinga allavega. Ég mun borða vel og æfa vel. Þetta er sá tími sem maður fær mestan tíma til að æfa,“ segir Júlían J.K. Jóhannsson.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×