Innlent

Skandinavar og Bretar skyldari landnámsfólki en Íslendingar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Núlifandi Skandinavar og Bretar eru skyldari landnámsmönnum Íslands heldur en núlifandi Íslendingar, samkvæmt rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar. Ástæðan er talin sú að endurteknar hörmungar undanfarin ellefuhundruð ár hafi breytt íslensku þjóðinni. Um þetta var fjallað í fréttum Stöðvar 2 og þættinum Landnemarnir í kvöld. 

„Á einhvern undarlegan hátt þá virðast núlifandi íbúar Skandinavíu og Bretlandseyja vera skyldari landnámsfólkinu okkar heldur en við erum sjálf,“ segir Agnar Helgason, líffræðilegur mannfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu. 

Skýringarnar eru taldar endurteknar hörmungar á Íslandi í gegnum aldirnar, eins og eldgos, hungursneyðar og drepsóttir.

„Við erum með svartadauða. Við erum með stórubólu í byrjun átjándu aldar sem drepur 25 prósent af þjóðinni. Við erum með móðuharðindin, sem drepa kannski 20 prósent af þjóðinni.

Og hvað gerist þá? Það glatast svo mikið af erfðaefni. Það eru svo margir sem eignast ekki börn og þá skilast þeirra erfðaefni ekki til næstu kynslóðar.

Þannig að það sem hefur gerst á þessum 1100 árum er að það er mjög mikið af erfðaefni, sem landnámsfólkið kom með sér, sem hefur ekki skilað sér alla leið til nútíðar. En í Bretlandi og Skandinavíu hefur erfðaefnið varðveist miklu betur,“ segir Agnar. 

Emma Eyþórsdóttir, erfðafræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands: „Þeir sterkustu lifa af, ef áföll verða.“Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Og þetta gerðist einnig hjá húsdýrum Íslendinga. Þannig dóu landnámssvínin út á 15. öld vegna kólnandi veðurfars, að sögn Emmu Eyþórsdóttur, erfðafræðings við Landbúnaðarháskóla Íslands.

„Svínin voru í útigangi og það kólnaði. Þau þoldu ekki loftslagið þannig að þau eru bara glötuð. 

Móðuharðindin voru eitt versta áfallið.

„Stofnarnir í rauninni hrynja, bæði nautgripir, sauðfé og hross, - og geitur örugglega líka,“ segir Emma. 

„Þetta hefur hugsanlega mótað eitthvað. Það er alltaf sagt að þeir sterkustu lifa af, ef áföll verða.“


Tengdar fréttir

Landnemarnir sigla áfram til Grænlands og Vínlands

Landnám Íslendinga á Grænlandi með siglingu Eiríks rauða árið 985 og dularfullt hvarf norrænu þjóðarinnar um 500 árum síðar er meðal þess fjallað verður um í þáttaröðinni "Landnemarnir“ sem heldur áfram á Stöð 2 í vetur.

Voru skógarnir svona veglegir við landnám?

"Ég er sannfærður um það að allt láglendi landsins hafi litið svona út eins og þessi mynd sýnir,” segir Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×