Fótbolti

Aron: Mjög leiðinlegt að Jürgen hafi misst starfið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannsson fagnar góðum úrslitum á HM 2014.
Aron Jóhannsson fagnar góðum úrslitum á HM 2014. Vísir/EPA
Aron Jóhannsson er ánægður með nýjan þjálfara bandaríska landsliðsins í fótbolta en sér eftir manninum sem fékk hann til að velja Bandaríkin frekar en Ísland.

Jürgen Klinsmann fékk Aron til að spila með bandaríska landsliðinu árið 2013 og valdi Aron síðan í HM-hópinn sinn á HM í Brasilíu 2014.

Aron hefur síðan verið inn í myndinni en hann missti þó mikið úr á síðasta ári vegna erfiða meiðsli sem héldu honum frá fótboltavellinum í langan tíma.

Aron var þó kominn aftur inn í hópinn fyrir síðasta verkefni en tveir tapleikir bandaríska landsliðsins með nokkra daga millibili í undankeppni reyndust vera síðustu leikirnir undir stjórn Jürgen Klinsmann sem var rekinn í vikunni.

„Mér finnst það mjög leiðinlegt að Jürgen hafi misst starfið sitt. Hann gaf mér tækifæri hjá landsliðinu í fyrsta skipti fyrir þremur árum; lagði mikla áherslu á að fá mig í liðið og hafði mikla trú á mér. Hann hjálpaði mér mikið innan sem utan vallar,“ sagði Aron Jóhannsson í viðtali við Brynjar Inga Erluson í Morgunblaðinu í dag.

„Bruce var ráðinn núna og hann hefur náð góðum árangri áður með landsliðið svo mér líst bara vel á þessa ráðningu hjá þeim,“ sagði Aron. Bruce Arena, nýr þjálfari bandaríska liðsins, lét hafa eftir sér fyrir nokkrum árum að hann væri á móti því að nota leikmenn með tvöfalt ríkisfang. Aron fellur í þann hóp.

„Það eru rúmlega 300 milljónir íbúa í Bandaríkjunum, þannig að það er eðlilegt að það séu ekki allir með sömu skoðun. Þegar Bruce var síðast með landsliðið voru líka nokkrir leikmenn með tvöfalt ríkisfang þannig að ég held að það verði ekkert vesen. Ég trúi því að menn sem eru með bandarískt vegabréf og eru nógu góðir fyrir landsliðið verði valdir,“ sagði Aron í fyrrnefndu viðtali.

Aron er búinn að ná sér af meiðslunum en hann glímdi við meiðsli í bæði mjöðm og nára. Hann er hinsvegar ekki inn í myndinni hjá nýjum þjálfara Werder Bremen Alexander Nouri.

„Eftir þrjá leiki er síðan þjálfarinn okkar rekinn og ég fær rautt spjald og tveggja leikja bann. Þá kom inn nýr þjálfari sem þurfti að treysta á aðra leikmenn og það gekk vel í byrjun svo það var erfitt að fá sénsinn. Núna er ég á byrjunarreit hjá liðinu og þarf að sanna mig til að fá spilatíma,“ sagði Aron í viðtalinu í Morgunblaðinu.

Aron fær fá tækifæri hjá Werder Bremen þessa dagana.Vísir/EPA

Tengdar fréttir

Klinsmann rekinn

Jürgen Klinsmann hefur verið rekinn úr starfi þjálfara bandaríska karlalandsliðsins í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×