Sport

108 ára bið Chicago Cubs lauk í nótt | Myndbönd

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Leikmenn Cubs fögnuðu eðlilega eins og óðir væru í leikslok.
Leikmenn Cubs fögnuðu eðlilega eins og óðir væru í leikslok. vísir/getty
Bölvun Chicago Cubs var loks aflétt í nótt er liðið varð meistari í bandaríska hafnaboltanum í fyrsta skipti síðan 1908. Ekkert lið í bandarískum íþróttum hefur mátt bíða eins lengi eftir titli.

Rimma Cubs og Cleveland Indians, sem hefur ekki unnið síðan 1948, fór í oddaleik og aukalotu. Að lokum vann Cubs, 8-7. Það sem meira er þá lenti Cubs 3-1 undir í einvíginu en vann þrjá leiki í röð til þess að tryggja sér titilinn. Efni í góða Disney-mynd.

Leikurinn var ótrúleg skemmtun og lætin hófust strax með fyrsta manni sem gerði sér lítið fyrir og sló boltann út fyrir völlinn og kom Cubs í 1-0. Það var aðeins reykurinn af réttunum því leikurinn var ótrúlega dramatískur.

Cubs komst í 3-1 og svo 5-1 en ótrúleg mistök hjá grípara Cubs hleypti Indians aftur inn í leikinn. Svona var dramatíkin allan leikinn. Cubs missti niður 6-3 forskot í 8. lotu og því varð að framlengja. Þar héldu taugar Cubs.

Árið 1945 var lögð bölvun á Cubs er bareigandanum Billy Sianis var hent út af heimavelli Cubs ásamt geit sem hann kom með. Þá lagði hann bölvun á liðið að það myndi aldrei aftur vinna titilinn. Á þá bölvun, sem kölluð hefur verið The Billy goat, hefur verið trúað allt þar til í nótt.

Það varð allt gjörsamlega vitlaust í Chicago í nótt en áhorfendur fjölmenntu á heimavöll Cubs til að fylgjast með þó svo leikurinn hefði verið spilaður í Cleveland. Líklega frekar léleg mæting í vinnu þar í borg í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×