Formúla 1

Hamilton: Eina sem ég get gert er að gera mitt besta

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Lewis Hamilton frussar kampavíninu eftir keppnina í dag.
Lewis Hamilton frussar kampavíninu eftir keppnina í dag. Vísir/Getty
Lewis Hamilton á Mercedes vann í Austin í Texas sem er í 29. skiptið sem Hamilton vinnur frá ráspól. Hver sagði hvað eftir keppnina?

„Mér hefur alltaf gengið vel hér. Liðið hefur staðið sig vel og ég er stoltur af því að vera þáttur af því. Það eina sem ég get gert er að gera mitt besta til að reyna að vinna,“ sagði Hamilton á verðlaunapallinum.

„Ég tapaði smá tíma í ræsingunni. Eftir það var þetta spurning um að lágmarka skaðann. Ég hefði gjarnan viljað vinna hérna í Bandaríkjunum. Ég var alls ekki að keyra varlega í dag,“ sagði Nico Rosberg á verðlaunapallinum.

„Ræsingin gekk næstum fullkomlega eftir. Við ætluðum að ná báðum Mercedes bílunum. Það var svo stafræni öryggisbíll skemmdi möguleika mína á að berjast við Nico undir lokin,“ sagði Daniel Ricciardo á verðlaunapallinum.

„Þetta hefði ekki geta farið mikið betur í dag. Við vorum frekar heppnir með stafræna öryggisbílinn. Hann hjálpaði Nico talsvert í dag. Pressan á þessum ökumönnum er meiri en hægt er að gera sér grein fyrir held ég. Báðir ökumenn eru í góðu skapi, ég veit ekki hvort sambandið þeirra á milli er eldfjall sem er á barmi þess að fara að gjósa,“ sagði Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes.

„Bíllinn var betri í dag en í gær. Við áttum smá möguleika á að glíma við Red Bull í dag. Við vorum að bregðast við öðrum þegar ég beið aðeins með að taka fyrsta þjónustuhléið,“ sagði Sebastian Vettel sem varð fjórði á Ferrari í dag.

„Dekkið var bara ekki 100% rétt undir bílnum. Þetta er bara ein af þessum helgum. Við vorum með góðan hraða en það skiptir auðvitað ekki máli þegar maður klárar ekki,“ sagði Kimi Raikkonen sem féll úr leik á Ferrari bílnum þegar þjónustuliðið brást honum. Dekkið virtist ekki sitja rétt undir bílnum.

„Ég var beðinn um að spara dekkin en ég var í sóknarfæri við Daniel. Ég bakkaði svo aðeins. Þeir sögðu mér að gefa allt í hringinn áður en ég kom inn á þjónustusvæðið og ég taldi að það væri merki um að ég ætti að koma inn á næsta hring. Þetta voru mín mistök að koma inn á þjónustusvæðið,“ sagði Max Verstappen sem féll úr leik á Red Bull bílnum.

„Ég veit ekki hvað gerðist hjá Max, hann ýtti ekki á staðfestingartakkann um að hann væri að koma inn á þjónustusvæðið hann birtist bara og sagðist vera á þjónustusvæðinu. Hann fékk engin skilaboð um að koma inn,“ sagði Christian Horner, keppnisstjóri Red Bull.


Tengdar fréttir

Hamilton: Ég er bjartsýnn á góða ræsingu

Lewis Hamilton hóf lokasprettinn í eltingarleiknum við liðsfélaga sinn í heimsmeistarakeppni ökumanna með því að tryggja sér ráspól í Texas. Hver sagði hvað eftir tímatökuna?

Lewis Hamilton vann í Texas

Lewis Hamilton vann sína 50. keppni í Formúlu 1 í dag. Liðsfélagi hans hjá Mercedes Nico Rosberg varð annar og Daniel Ricciardo á Red Bull varð þriðji.

Hamilton á ráspól í Bandaríkjunum

Lewis Hamitlon á Mercedes var fljótastur í tímatökunni fyrir bandaríska kappaksturinn sem fram fer á morgun. Nico Rosberg á Mercedes varð annar og Daniel Ricciardo á Red Bull þriðji.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×