Formúla 1

Nico Hulkenberg fer til Renault

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Nico Hulkenberg hættir færir sig frá Force India til Renault eftir tímabilið.
Nico Hulkenberg hættir færir sig frá Force India til Renault eftir tímabilið. Vísir/Getty
Formúlu 1 lið Renault hefur staðfest að Nico Hulkenberg hafi samið við liðið. Hulkenberg er sem stendur samningsbundinn Force India.

Hulkenberg var á samningi hjá Force India út næsta tímabil, en liðið valdi að standa ekki í vegi fyrir brottför hans ef hann vildi fara annað.

Þýski ökuþórinn segist spenntur að hjálpa Renault að „skrifa nýja sögu um góðan árangur“ en liðið stefnir á að geta unnið keppnir og keppt um heimsmeistaratitla inna fjögurra til fimm ára.

„Ég er mjög ánægður með að fara til Renault. Renault hefur alltaf verið stór þátttakandi í akstursíþróttaheiminum. Liðið vekur upp ótrúlegar minningar. Á tíma sínum hjá liðinu tókst Michael Schumacher ekki einungis að gera Þjóðverja að F1 þjóð heldur einnig að vekja áhuga minn á kappakstri,“ sagði Hulkenberg.

„Ég mun gefa allt sem ég á til að aðstoða Force India í að ná í fjórða sæti í keppni bílasmiða í þeim fjórum keppnum sem eru eftir á tíambilinu. Það yrði mikið afrek fyrir Force India og besti árangur þess frá upphafi og frábær lokakafli ánægjulegrar dvalar minnar hér,“ bætti Hulkenberg við.

Enn er óstaðfest hver verður liðsfélagi Hulkenberg. Núverandi ökumenn liðsins, Kevin Magnussen og Jolyon Palmer koma helst til greina ásamt Manor ökumanninum Esteban Ocon.

„Til að taka næsta skref í þróun liðsins þurftum við reynslumikinn ökumann sem enn þyrstir í verðlaunasæti. Nico Hulkenberg passar fullkomlega í þetta hlutverk. Hann er afar hæfileikaríkur og viljugur ökumaður. Hann mun taka næsta skref með okkur,“ sagði Jerome Stoll, framkvæmdastjóri kappakstursdeilda Renault.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir feril Hulkenberg í Formúlu 1.


Tengdar fréttir

Bílskúrinn: Spenna á Suzuka

Nico Rosberg tók risastórt skref í átt á sínum fyrsta heimsmeistaratitili í japanska kappakstrinum um liðna helgi. Lið Rosberg, Mercedes tryggði sér um leið þriðja heimsmeistaratitil sinn í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×