Fótbolti

Alfreð ekki í hóp þegar Augsburg gerði jafntefli | Jafnt hjá Bayern

Robben skoraði fyrra mark Bayern gegn Frankfurt.
Robben skoraði fyrra mark Bayern gegn Frankfurt. Vísir/Getty
Alfreð Finnbogason var ekki í leikmannahóp FC Augsburg sem mætti Schalke á heimavelli í þýsku úrvalsdeildinni í dag. FC Bayern gerði jafntefli við Frankfurt á útivelli þar sem heimamenn náðu að jafna einum færri.

Alfreð glímir við smávægileg meiðsli samkvæmt þýskum fjölmiðlum en hann er nýkominn aftur til Þýskalands eftir velheppnaða landsliðsferð til Íslands þar sem hann skoraði bæði gegn Finnlandi og Tyrklandi.

Augsburg var í 12.sæti deildarinnar fyrir leikinn í dag en Schalke í 15.sæti.

Leikurinn var markalaus lengi framan af en um miðjan síðari hálfleik kom Nabil Bentaleb gestunum yfir. Daniel Baier jafnaði fyrir Augsburg á 77.mínútu og þar við sat.

Frankfurt náði óvæntu jafntefli á heimavelli sínum gegn meisturum FC Bayern. Arjen Robben kom Bæjurum yfir á 10.mínútu en Ungverjinn Szabolcs Husztli jafnaði rétt fyrir leikhlé.

Joshua Kimmich kom Bayern í 2-1 á 62.mínútu og markaskorarinn Husztli fékk sitt annað gula spjald örfáum mínútum síðar.

Einum færri tókst heimamönnum að jafna metin með marki frá Marco Fabian á 78.mínútu. Bayern tókst ekki að bæta við þriðja markinu og 2-2 jafntefli því niðurstaðan. Bayern heldur toppsætinu með 17 stig og er tveimur stigum á undan Köln sem situr í 2.sætinu. Frankfurt er í 7.sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×