Sport

Eygló Ósk horfir til framtíðar: Set markið ennþá hærra á næstu leikum

Óskar Ófeigur Jónsson í Ríó skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir í úrslitasundinu í nótt.
Eygló Ósk Gústafsdóttir í úrslitasundinu í nótt. Vísir/Anton
Eygló Ósk Gústafsdóttir náði í nótt næstbesta árangri íslenskrar sundkonu á Ólympíuleikum en eftir sundið var hún strax farin að tala um að ná lengra á Ólympíuleikunum í Tókýó 2020.

„Þetta tekur á en núna þarf ég bara að æfa meira og æfa til þess að venja mig á það. Ég ætla að setja markið ennþá hærra á næstu leikum," sagði Eygló Ósk Gústafsdóttir eftir úrslitasundið í sundhöllinni í Ríó.

Sjá einnig:Eygló varð áttunda í úrslitunum

Eygló Ósk hefur nú lokið keppni á Ólympíuleikunum í Ríó en þetta voru hennar aðrir Ólympíuleikar. Hún varð í 20.sæti í 200 metra baksundi á ÓL í London 2012 en hækkaði sig núna um tólf sæti í sinni bestu grein.

„Sundið í gær gerði mig hungraða í meira. Það að synda núna í úrslitunum og heyra öll hvatningarlætin í kringum þetta. Vita það að ég er meðal átta bestu í heiminum," sagði Eygló Ósk.

Hún setti bæði Íslandsmet og Norðurlandamet í undanúrslitasundinu og náði þar sjöunda sætinu. Eftir frábæra byrjun í úrslitasundinu varð hún aðeins að gefa eftir.

Sjá einnig:Eygló Ósk: Mjög erfitt en líka ótrúlega gaman

„Ég skil ekki hvernig fólk myndi hætta eftir þetta. Þetta hvetur mig til að æfa ennþá meira. Nú er ég að fara að byrja æfa eins og brjálæðingur og bæta allt sem ég get bætt þangað til að ég fer að keppa næst," sagði Eygló Ósk.

Eygló Ósk er bara 21 árs gömul og verður því á flottum aldri þegar leikarnir fara næst fram í Tókýó eftir fjögur ár.




Tengdar fréttir

Lét hinar halda að þær þyrftu ekki að hræðast mig

Það var rosalega gaman að hitta á sundkonuna Eygló Ósk Gústafsdóttur eftir undanúrslitin í 200 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Ríó í fyrrinótt því þessi 21 árs gamli Ægiringur gat örugglega ekki verið glaðari þegar hún hitti undirritaðan.

Eygló Ósk: Mjög erfitt en líka ótrúlega gaman

Eygló Ósk Gústafsdóttir varð áttunda í 200 metra baksundi kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt en þetta er næstbesti árangur íslenskrar sundkonu á Ólympíuleikum.

Eygló Ósk í úrslit: Ég er næstum því að fara gráta

Eygló Ósk Gústafsdóttir átti erfitt með sig eftir undanúrslitasundið í 200 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt. Hún náði sjöunda besta tímanum, setti nýtt glæsilegt Íslandsmet og komst í úrslit. Stórkostleg frammistaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×