Fótbolti

Hóta verkfalli og ætla ekki á ÓL í Ríó vegna launamunar kynjanna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimsmeistararnir mæta kannski ekki til Ríó.
Heimsmeistararnir mæta kannski ekki til Ríó. vísir/getty
Heimsmeistaralið Bandaríkjanna í knattspyrnu kvenna hótar því að fara í verkfall og mæta ekki á Ólympíuleikana í Ríó vegna launamunar kynjanna hjá bandaríska knattspyrnusambandinu. Sky Sports greinir frá.

Liðið er búið að biðja um leyfi alríkisdómara í Bandaríkjunum til að fara í verkfall en Ólympíuleikarnir í Ríó í Brasilíu hefjast eftir tvo mánuði.

Leikmenn kvennaliðsins segja að launamunurinn sé ósanngjarn og stendur bandaríska þingið með heimsmeisturunum. Kallað var eftir því í þingsal vestanhafs á þriðjudaginn að bandaríska knattspyrnusambandið bindi samstundis enda á þennan launamun og að það komi fram við alla íþróttamenn sína af virðingu.

Stelpurnar segja að þær fá 2.400-3.380 dali (300.000-422.000 krónur) fyrir hvern landsleik en strákarnir fá 4.260-12.000 dali (532.000-1.500.000 króna).

Bandaríska kvennalandsliðið er ríkjandi heimsmeistari en það vann sinn þriðja heimsmeistaratitil á HM í Kanada á síðasta ári. Það hefur fengið verðlaun á hverju einasta heimsmeistaramóti síðan HM kvenna byrjaði árið 1991.

Bandaríkin eru enn fremur fjórfaldir Ólympíumeistarar kvenna og eru ríkjandi Ólympíumeistarar. Bandarísku stelpurnar eru efstar á heimslista FIFA á meðan strákarnir eru í 29. sæti og hafa aldrei komist lengra á HM en í átta liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×