Innlent

Mun sakna þess að kenna misáhugasömum nemendum í Háskóla Íslands

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson. Vísir/Ernir
Guðni Th. Jóhannesson forsetaframbjóðandi mun sakna þess að kenna sagnfræði í Háskóla Íslands nái hann kjöri þann 25. júní næstkomandi. Guðni var í beinni í dag á Facebook-síðu Nova og svaraði þar ýmsum spurningum, meðal annars því hver myndi taka við af honum sem kennari í háskólanum ef hann verður forseti.

„Það er langt til kjördags og það má ekki ganga að neinu sem vísu. Ég tek þetta skref fyrir skref en það kemur alltaf maður í manns stað hvort sem það er á Bessastöðum eða í Háskóla Íslands. Það er enginn ómissandi í okkar samfélagi. En nái ég kjöri sem forseti mun ég sakna þess að kenna við háskólann. Það er búið að vera mjög gaman og mikil forréttindi að fá að kenna áhugasömum nemendum, eða svona misáhugasömum,“ sagði Guðni. 

Hann var meðal annnars spurður að því hvað hann myndi bjóða Davíð Oddssyni, sem einnig er í forsetaframboði, upp á í matarboði og svaraði hann því til að myndi bjóða honum upp á pönnusteikta bleikju sem Guðni upplýsti að væri uppáhaldsmaturinn sinn.

Þá myndi hann einnig bjóða þeim Kleópötru, Jesú Kristi og John F. Kennedy upp á fiskrétt en það eru þær þrjár persónur úr mannkynssögunni sem Guðni myndi helst vilja bjóða í mat.

Viðtalið við Guðna á Facebook-síðu Nova má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×