Innlent

„Þegar Ólafur sagði "no, no, no, no“ heyrði ég "yes, yes, yes““

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Þegar Ólafur Ragnar sagði „no, no, no, no“ á CNN þá heyrði ég bara „yes, yes, yes and you won‘t find it,“ sagði forsetaframbjóðandinn Ástþór Magnússon í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu í morgun.

Greint var frá því í Reykjavík Grapevine og Kjaranum í gær að fjölskylda Dorritar Moussiaeff, eiginkonu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, ætti félagið Lasca Finance Limited á Bresku jómfrúaeyjum. Forsetinn hafði áður staðfastlega neitað því að hann eða fjölskylda hans tengdist slíkum aflandsfélögum. Gögnin sem fréttin var unnin upp úr bárust fyrrnefndum fjölmiðlum frá Ástþóri.

„Þegar forsetafrúin segir að hún hafi fært lögheimilið sitt til að taka við aldagömlu fjölskyldufyrirtæki þá er það lygi. Fyrirtækið var stofnað árið 1963,“ sagði Ástþór.

Í viðtalinu nefndi Ástþór til sögunnar bókina Unholy Business eftir Ninu Burleigh. Bókin kom út árið 2009. „Það eru til tvær sögur af því hvernig Shlomo Moussaieff [faðir Dorritar] áskotnaðist auður sinn og það veltur á því hvort fólki líkar maðurinn eður ei hvora söguna það segir,“ segir meðal annars í bókinni.

Í viðtalinu rekur Ástþór hluti sem koma fram í bókinni. Þar segir hann meðal annars að demantar úr verslunShlomo Moussaieff séu notaðir sem gjaldmiðill í vændiskaupum olíufursta og að hann hafi þurft að flýja Ísrael vegna ítrekaðra afbrota.

„Hún [Dorrit] er að blekkja þjóðina því hún er með í vasanum, í einhverri hirslu, einhverri skúffu, hálsmen og stein sem pabbi hennar gaf henni og verðmæti hans er upp á milljarða. Þessi færanlegi auður hennar færi beint undir auðlegðarskatt hér á Íslandi. [...] Pabbi hennar flúði lögregluna í Ísrael árið 1963 og fyrir þremur árum þá flúði forsetafrú Íslands skattinn á Íslandi,“ segir Ástþór.

Viðtalið í heild sinni má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×