Formúla 1

Di Grassi fyrstur í mark en d´Ambrosio vann

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Jerome d´Ambrosio vann dramatískan Formúlu E kappakstur í Mexíkó.
Jerome d´Ambrosio vann dramatískan Formúlu E kappakstur í Mexíkó. Vísir/Getty
Dragon ökumaðurinn Jerome d´Ambrosio var á ráspól fyrir mexíkóska Formúlu E kappaksturinn. Lucas di Grassi á ABT kom fyrstur í mark en var sviptur fyrsta sætinu.

D´Ambrosio hélt forystunni frá Nicolas Prost sem ræsti annar. Baráttan var hörð í upphafi. Fimm sekúndur voru á milli fyrsta ökumanns og fimmta.

Di Grassi fór inn á þjónustusvæðið á 22. hring, á undan flestum öðrum sem fóru inn á 23. hring til að skipta um bíl.

Di Grassi var í návígi við d´Ambrosio og notaði Fan Boost-ið sitt vel til að ná fyrsta sæti. Eftir það hvarf di Grassi og kom fyrstur í mark með 10 sekúndna forskot.

Sebastian Buemi reyndi hvað hann gat til að ná öðru sætinu af d´Ambrosio en allt kom fyrir ekki.

Þeir Buemi og d´Ambrosio óku hlið við hlið yfir endamarkið en Dragon bíll d´Ambrosio var aðeins á undan Renault bíl Buemi.

Seinna kom í ljós að ABT bíll di Grassi náði ekki lágmarksþyngd sem bílarnir verða að ná sem er 888 kg. Bíll di Grassi var 1,8 kg undir. Di Grassi var því vikið úr keppninni.

D´Ambrosio vann því mexíkóska kappaksturinn á ótrúlegan hátt. ABT liðið hefur ekki áfrýjað niðurstöðu dómaranna. Buemi varð því annar og Prost þriðji.


Tengdar fréttir

Button: Enn mikil vinna framundan

Jenson Button ökumaður McLaren liðsins í Formúlu 1 hefur ekki viljað spá fyrir um gengi liðsins á komandi tímabili. Hann segir að enn sé mikil vinna framundan vilji liðið verða samkeppnishæft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×