Innlent

„Tæplega til að bæta velferð nema örfárra bænda“

Una Sighvatsdóttir skrifar
Nýir búvörusamningar munu kosta íslenska skattgreiðendur tugi milljarða á næstu árum, en ávinningurinn fyrir almenning er óljós. Að minnsta kost tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins segjast ekki styðja samningana.

Eins og Stöð2 greindi frá í gær aukast útgjöld ríkisins um rúmar 900 milljónir og verða um 14 milljarðar á næsta ári samkvæmt nýjum búvörusamningum sem ríkið undirritaði við bændur í gær. Þetta bætist ofan á þann óbeina stuðning sem felst í vendartollum, sem þýðir að samtals mun landbúnaðurinn kosta ríkissjóð um 220-240 milljarða næsta áratuginn

Sjá einnig: Forsætisráðherra gagnrýnir gagnrýni á nýjan búvörusamning

Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins er harðorð um búvörusamningana á Facebook í dag og segist aldrei munu samþykkja þá á Íslandi. Flokksbróðir hennar Vilhjálmur Bjarnason tekur í sama streng.

„Ég get ekki stutt þetta eins og þetta lítur út fyrir mér. Þetta er ekki til að bæta velferð heildarinnar og tæplega til að bæta velferð nema örfárra bænda sem best eru settir en í heildina er þetta dálítil trygging á óbreyttu ástandi,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir að skattgreiðendur eigi heimtingu á að vita hver ávinningurinn sé af svo háum fjárútlátum.

„Útgjöldin á hverju ári eru um það bil sömu tekjur og ríkissjóður hefur af veiðigjöldum í sjávarútvegi. Þetta stenst nokkurn veginn á og það verður þá að gera þá kröfu til þess að það komi skýrt fram hver er ávinningurinn af þessum útgjöldum,“ segir Vilhjálmur.

Sjá einnig: Búvörusamningar: Kostnaður ríkisins við landbúnaðinn meiri en kostnaður Svavarssamninga hefði verið

Hann segir sömuleiðis ótækt að gerðir séu samningar til tíu ára.

„Það er binding fyrir ríkið og bindin fyrir þingræðið, þetta nær yfir þrjú, jafnvel fjögur kjörtímabil og það er náttúrulega á mörkunum að það sé hægt að bjóða þingræðinu upp á þetta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×