Innlent

Segir nefnd um búvörusamninga aldrei hafa komið saman

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir gagnrýnir landbúnaðarráðherra Sigurð Inga Jóhannsson fyrir samráðsleysi og ógegnsæja ákvarðanatöku í aðdraganda undirritunar búvörusamninganna sem samþykktir voru á dögunum. Þá segir hún einnig að nefnd ráðherra, sem skipuð var til að vinna að gerð samninganna hafi aldrei komið saman.

Sjá einnig: Búvörusamningar: Kostnaður ríkisins við landbúnaðinn meiri en kostnaður Svavarssamninga hefði verið

Þetta kom fram í máli Ragnheiðar á Sprengisandi í morgun þar sem búvörusamningarnir voru meðal annars ræddir. Þeir hafa verið umdeildir, ekki síst meðal stjórnarþingmanna sem hafa gagnrýnt þá í ræðu og riti síðastliðna viku. Í það minnsta tveir þeirra haf sagt opinberlega að búvörusamninganir munu kosta íslenska skattgreiðendur tugi milljarða á næstu árum, en ávinningurinn fyrir almenning sé óljós.

Eins og Stöð2 greindi frá á dögunum aukast útgjöld ríkisins um rúmar 900 milljónir og verða um 14 milljarðar á næsta ári samkvæmt nýjum búvörusamningum.

Ragnheiður, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þann 20. febrúar að hún myndi aldrei samþykkja slíkan samning á Alþingi Íslendinga. Flokksbróðir hennar Vilhjálmur Bjarnason tók í sama streng og sagðist ekki geta stutt þá. „Þetta er ekki til að bæta velferð heildarinnar og tæplega til að bæta velferð nema örfárra bænda sem best eru settir en í heildina er þetta dálítil trygging á óbreyttu ástandi,“ sagði Vilhjálmur.

Sjá einnig: Forsætisráðherra gagnrýnir gagnrýni á nýjan búvörusamning

Skipuð í nefnd sem kom aldrei saman 

Ragnheiður reifaði aðdraganda samninganna og skipun nefndar, sem hún var tilnefnd í en kom aldrei saman, á Sprengisandi í dag.

„Ef ég man rétt þá í október 2014 fengu allir þingflokkar bréf frá ráðherra [Sigurði Inga] um að skipa fulltrúa sína í nefnd um búvörusamninga. Að minnsta kom sú tillaga inn til okkar sjálfstæðismanna og flokkurinn skipaði Harald Benediktsson og Ragnheiði Ríkharðsdóttur í þá nefnd. En sú nefnd var aldrei kölluð saman og ekki get ég svarað af hverju,“ segir Ragnheiður sem þykir það harla óeðlilegt í ljósi „kröfu samtímans“ um aukið samráð og opið og gegnsætt ákvarðanatökuferli.

Spjall þeirra Sigurjóns M. Egilssonar, Ragnheiðar og Svandísar Svavarsdóttur má heyra hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×