Fótbolti

Rúnar tók Jacob Schoop af velli eftir aðeins tuttugu mínútur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jacob Schoop.
Jacob Schoop. Vísir/Stefán
Jacob Schoop var í byrjunarliði norska úrvalsdeildarliðsins Lilleström í æfingaleik á móti Bodö/Glimt í kvöld en þessi fyrrum KR-ingur þurfti að yfirgefa völlinn í fyrri hálfleiknum.

Danski miðjumaðurinn er að reyna að sanna sig hjá norska úrvalsdeildarliðinu en það er ekki hægt að segja að hlutirnir séu að ganga upp hjá honum í byrjun.

Leikurinn í kvöld fór fram á Aspmyra Stadion í Bodö í norður Noregi  en liðin eru bæði að gera allt klárt fyrir norsku deildina sem hefst eftir aðeins tvær vikur.

Rúnar Kristinsson, þjálfari Lilleström, byrjaði með Jacob Schoop út á hægri kantinum í leiknum á móti Bodö/Glimt en varð að taka Danann út á 21. mínútu.

Jacob Schoop fékk þá högg og varð að yfirgefa völlinn meiddur. Hann fékk ekki því mikinn tíma til að sanna sig fyrir Rúnari. Staðan var markalaus þegar hann fór af velli. Jacob Schoop er að leita sér að nýju félagi en hann lék með KR síðasta sumar.

Jacob Schoop hefur farið á reynslu til Bandaríkjanna en hann fékk ekki samning hjá MLS-liðinu Orlando City í janúar. Schoop er nú kominn til Noregs þar sem hann fékk tækifæri til að sýna sig hjá Rúnari Kristinssyni hjá Lilleström.

Rúnar ætti að geta sótt sér upplýsingar um Schoop hjá kunningjum sínum í KR og því eru þessi meiðsli í kvöld enginn endapunktur fyrir danska miðjumanninn þótt að þau séu óheppileg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×