Erlent

Dómsmálaráðherra segir af sér í mótmælaskyni

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Christiane Taubira tilkynnti um afsögn sína á blaðamannafundi í gær.
Christiane Taubira tilkynnti um afsögn sína á blaðamannafundi í gær. Nordicphotos/AFP
Dómsmálaráðherra Frakklands, Christiane Taubira, sagði af sér í gær í mótmælaskyni við lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar þess efnis að svipta beri franska ríkisborgara, sem sakfelldir hafa verið fyrir hryðjuverk, ríkisborgararétti.

Taubira er ekki par hrifin af áformum ríkisstjórnarinnar. Hugmyndin um sviptinguna kom fram í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á París í nóvember.

Frá árásunum hafa frjálslynd viðhorf Taubira orðið til þess að hún varð ósammála stefnu ríkisstjórnarinnar í meiri mæli, sérstaklega þegar François Hollande forseti sagði að harðar yrði tekið á hryðjuverkamönnum og lýsti yfir neyðarástandi.

Á næstu dögum verða einnig lagðar fyrir þingið breytingartillögur á stjórnarskránni. Breytingarnar miða að því að einfaldara yrði að lýsa yfir neyðarástandi.

Við neyðarástand fær lögregla lausan tauminn til að halda fólki í stofufangelsi og fara í húsleit án heimilda frá dómstólum.

Við af Taubira tekur þingmaðurinn Jean-Jacques Urvoas. Hann er fylgjandi stjórnarskrárbreytingunum og hefur aðstoðað Hollande við smíð þeirra.

Embættisstörf Taubira mörkuðust af frjálslyndum viðmiðum og fylgdi hún meðal annars eftir löggjöf um hjónavígslur samkynja para. Þá barðist hún einnig fyrir umbótum á starfi lögreglu sem og dómskerfisins alls.

Kynþáttafordómar flokks- og stuðningsmanna þjóðernishyggjuflokksins Þjóðfylkingarinnar, sem á tvö sæti í neðri deild franska þingsins, settu einnig svip á valdatíð hennar í dómsmálaráðuneytinu.

Taubira er fædd í Frönsku Gvæjana og er einn reyndasti stjórnmálamaður Frakka. Svo dæmi séu nefnd um kynþáttafordóma gegn Taubira líkti sveitarstjórnarframbjóðandi Þjóðfylkingarinnar henni við apa í fyrra. Þá veifuðu gestir eitt sinn banönum að henni á kappræðum.

„Stundum felst andstaða í því að halda áfram, stundum felst andstaða í því að hætta,“ sagði Taubira um tímamótin í gær.

Franska blaðið Minute birti fmynd af Taubira með fyrirsögninni „Lævís sem api finnur Taubira bananann sinn“.Nordicphotos/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×