Innlent

Meiri­hlutinn fallinn í borginni

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar.
Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar. Vísir/Vilhelm

Einar Þorsteinsson borgarstjóri í Reykjavík og oddviti Framsóknarflokksins sleit meirihlutasamstarfinu á fundi með oddvitum meirihlutans í borginni á áttunda tímanum.

RÚV greindi fyrst frá en Vísir hefur fengið slitin staðfest. Nokkur ágreiningur hefur verið í borgarstjórn um flugvallarmálið undanfarna daga. Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær að það hrikti í meirihlutanum vegna málsins.

„Afstaða Pírata, Samfylkingar og að einhverju leyti Viðreisnar líka, hefur verið alveg skýr og þau vilja flugvöllinn burt. Við höfum ekki verið þar,“ sagði Einar.

Í viðtali Morgunblaðsins talaði Einar líka um stefnu meirihlutans í samgöngumálum.

„Það hefur verið þrengt að fjölskyldubílnum með þeim skilaboðum um að taka strætó en þjónustan er samt ekki nægilega góð. Við þurfum að sýna hvert öðru mildi þegar kemur að þessu. Venjulegt fjölskyldufólk í úthverfunum á erfitt með að sinna sínum erindum hjólandi,“ sagði hann.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var boðað til funda oddvita Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Samfylkingar í borginni í kvöld vegna stöðunnar. Nýleg könnun Gallup á fylgi flokkanna í borginni leiddi í ljós að Framsókn mældist með rúmlega þriggja prósenta fylgi. Fylgi flokksins hefur hrapað síðan í miklum kosningasigri vorið 2022 þegar flokkurinn fékk 18 prósenta fylgi í borginni.

Sveitarstjórnarkosningar fara fram vorið 2026.

Borgarfulltrúar eru 23 talsins og þarf því 12 til að mynda nýjan meirihluta. Skipting borgarfulltrúa milli flokka er eftirfarandi:

  • Sjálfstæðisflokkurinn: 6
  • Samfylkingin: 5
  • Framsóknarflokkurinn: 4
  • Píratar: 3
  • Sósíalistaflokkur Íslands: 2
  • Viðreisn: 1
  • Vinstrihreyfingin grænt framboð: 1
  • Flokkur fólksins: 1

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Ráðherra segist ekki skilja hvað þau hjá borginni eru að hugsa

Eyjólfur Ármannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir grafalvarlegt mál að einni flugbraut Reykjavíkurflugvallar verði lokað sökum þess að Reykjavíkurborg hafi dregið að fella trjágróður í Öskjuhlíð. Ráðherrann segist ekki skilja hvað þau hjá borginni eru að hugsa með því að haga sér svona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×