Erlent

Trump beinir spjótum sínum gegn Al­þjóð­lega sakamáladómstólnum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Trump hefur haldið áfram að gefa út hverja forsetatilskipunina á fætur annarri. Það fór vel á með honum og Netanjahú í vikunni.
Trump hefur haldið áfram að gefa út hverja forsetatilskipunina á fætur annarri. Það fór vel á með honum og Netanjahú í vikunni. Getty/Anadolu/Avi Ohayon

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undirritað enn eina forsetatilskipunina sem vekur athygli. Að þessu sinni beinir hann spjótum sínum að Alþjóðlega sakamáladómstólnum í Haag (ICC).

Forsetinn hefur nú fyrirskipað að allir þeir sem aðstoða dómstólinn í rannsóknum sínum gegn bandarískum ríkisborgurum og einnig „vinum“ Bandaríkjanna, geti átt yfir höfði sér fjársektir og höfnun á vegabréfsáritun. 

Við tilefnið sakaði Trump dómstólinn um ólöglegar og tilhæfulausar aðgerðir gegn Bandaríkjunum og Ísrael en tilkskipunin var undirrituð á meðan Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraela var staddur í heimsókn í Washington. 

Í nóvember síðastliðnum gaf dómstóllinn út handtökuskipun á hendur Netanjahú eftir að hann var sakaður um að hafa fyrirskipað stríðsglæpi á Gasa svæðinu. Samskonar tilkskipun var einnig gefin út á hendur háttsettum Hamas-liðum. 

Ísraelar hafna ásökununum og hafa gagnrýnt málið harðlega. 

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn er með höfuðstöðvar sínar í Haag í Hollandi og var stofnaður til þess að taka á alvarlegum brotum er varða alþjóðasamfélagið. 

Um er að ræða sjálfstæða alþjóðastofnun sem er ekki hluti af Sameinuðu þjóðunum. Um 120 þjóðir eiga aðild að dómstólnum en Bandaríkjamenn og Ísraelar eru ekki þar á meðal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×