Fótbolti

Valbuena: Ekki eins og að þetta hafi verið morð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mathieu Valbuena.
Mathieu Valbuena. Vísir/Getty
Franski landsliðsframherjinn Mathieu Valbuena segist vel geta hugsað sér að vera samherji Karim Benzema á EM í Frakklandi í sumar.

Benzema hefur verið settur í bann frá franska landsliðinu á meðan að hann sætir rannsókn fyrir hans þátt í fjárkúgunarmáli sem kom upp eftir að Mathieu Valbuena var hótað með kynlífsmyndbandi.

Á meðan að málið er enn opið er Benzema meinað að hafa nokkur samskipti við Valbuena. Það verður því ómögulegt fyrir þá að vera báðir í landsliðshópi Frakklands á EM nema að málið leysist fyrir mótið í sumar.

Sjá einnig: Valbuena opnar sig um fjárkúgunarmálið

„Við höfum verið að hugsa um EM í tvö ár. Við erum að undirbúa okkur fyrir mótið og ég efast ekki í eina sekúndu um að ég verði með,“ sagði Valbuena við franska fjölmiðla.

„Við skulum sjá til. En ég sé engin vandamál við að spila með honum. Það er ekki eins og að þetta hafi verið morð.“

Sjá einnig: Benzema fær fullan stuðning Real Madrid

„En það er ekkert sem við vitum með vissu. Ég hef rætt við þjálfarann en ég ætla ekki að segja frá því sem við töluðum um. Við ræddum margt og mér leið betur eftir samtalið.“

Benzema hefur óskað eftir fundi með Valbuena en dómari í Frakklandi hafnaði þeirri bón. Benzema hefur játað að hann ræddi fjárkúgunarmálið við Valbuena á sínum tíma fyrir hönd æskuvinar síns en taldi sig ekki vera að gera neitt rangt.

EM í Frakklandi hefst 10. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×